136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-deilan við ESB.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Lokaorð hv. þingmanns dæma sig að sjálfsögðu sjálf. Við leggjum þetta mál hvað varðar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir Alþingi jafnskjótt og unnt er. Við göngum lengra í að fara fram á þinglega afgreiðslu á því máli en meira að segja stjórnarandstaðan fór fram á. Ég minnist þess ekki að hún hafi krafist þess að hér kæmi þingsályktunartillaga þar sem þingmenn greiddu atkvæði um hvort samið yrði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða ekki.

Hitt málið lítur svona út. Þetta eru sameiginleg viðmið sem Ísland og Evrópusambandið hafa orðið ásátt um. Grundvöllur frekari samninga þar sem m.a. verður tekið tillit til, að því er segir hér, með leyfi forseta: „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“

Á þessum grundvelli munum við ganga til samninga um þetta mál og þar á auðvitað eftir að reyna á ýmsar kröfur okkar varðandi þau atriði sem þarf að semja um, skilmála af ýmsu tagi.