136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

tollalög.

158. mál
[18:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum.

Frumvarp þetta er lagt fram með það fyrir augum að bregðast við aðkallandi vanda fyrirtækja vegna gjalddaga aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið september til október, en sá gjalddagi er 17. nóvember 2008. Með því er verið að bregðast tímabundið við brýnni þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna þess gengisfalls, samdráttar og verðbólgu sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin sem kveður á um að aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, þ.e. aðilum sem eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, verði heimilt að óska eftir því að fyrirkomulagi gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilsins september til október 2008 verði breytt á eftirfarandi hátt: Í stað þess að gjalddaginn sé 17. nóvember verði veittur gjaldfrestur á þann hátt að 1/3 aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið komi til greiðslu 17. nóvember, 1/3 verði frestað um einn mánuð til 15. desember 2008 og því sem eftir stendur (1/3) frestað til 5. janúar 2009. Dagsetningin 5. janúar 2009 er lögð til með hliðsjón af því að gjalddagi aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið nóvember til desember er 15. janúar 2009 og verður því ekki um skörun að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins má gera ráð fyrir að aðflutningsgjöld á gjalddaga 17. nóvember 2008 nemi að óbreyttu um 18 milljörðum króna.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að vextir af gjaldfrestinum, þ.e. frá 17. nóvember til 15. desember 2008 og frá 17. nóvember til 5. janúar 2009, verði almennir meðaltalsvextir, sbr. II. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, á viðkomandi tímabili en ekki dráttarvextir. Að öðru leyti gilda ákvæði 125. gr. tollalaga um vexti á vangreidd aðflutningsgjöld.

Herra forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.