136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau efnislegu atriði sem hv. þingmaður rakti í ræðu sinni mun ég kannski fjalla um þegar ég flyt ræðu mína en ég vildi bara í stuttu andsvari gera athugasemd við eitt atriði sem fram kom í máli hv. þingmanns.

Hann kallaði eftir því að tiltekin gögn sem hann nefndi sem lúta að samningum við Breta og Hollendinga og samningaferlinu innan Evrópusambandsins yrðu lögð fram á Alþingi og kynnt. Ég vildi þess vegna upplýsa að utanríkisráðuneytið hefur kynnt þau gögn í utanríkismálanefnd en þar sem um er að ræða gögn sem hafa bein áhrif á samninga sem standa nú þegar yfir við erlend ríki ríkir um þau trúnaður í utanríkismálanefnd, enda hefði birting gagnanna núna áhrif á samningsstöðu í þeim samningum sem fram undan eru og fara vonandi fram í næstu viku um frágang þessara mála. Þar af leiðandi voru þau kynnt í utanríkismálanefnd með trúnaði og um það var ekki gerður ágreiningur í utanríkismálanefnd. Það var ágætissátt um það fyrirkomulag meðan málið er til meðferðar og til samninga við önnur ríki.