136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa þingsályktunartillöguna, með leyfi herra forseta. Hún er ekki löng:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“

Alþingi felur sem sagt ríkisstjórninni eða einhverjum að semja fyrir sína hönd um lausn ákveðins vandamáls. Ég get ekki séð hvernig Alþingi getur bakkað út úr ákvörðun sem það er búið að fela einhverjum aðila að semja fyrir sig. Við erum búin að fela þetta vald til samningsaðila. Við höfum ekkert um það að segja meir og þó að við höfum fjárveitingavald þá get ég ekki séð hvernig fjárveitingavaldið, sem með svona tillögu felur ríkisstjórninni að semja, geti bakkað út úr því. Það get ég ekki séð.

Við erum því núna að veita opinn víxil. Við vitum ekkert hvað kemur út úr því. Það eru engin efri mörk og ekkert í þessari þingsályktunartillögu. Það stendur ekki einu sinni í tillögunni sjálfri að samninginn sjálfan skuli bera upp við Alþingi, kaupsamninginn að íbúðinni sem ég nefndi hérna áðan, ekkert slíkt. Við eigum bara að borga þegar þar að kemur og þá getum við ekki annað en samþykkt það.

Svo vil ég aftur undirstrika að hv. þingmaður segir að hv. utanríkismálanefnd fjalli um þetta mál af því að það sé þar til umræðu. Nákvæmlega eins mun viðskiptanefnd fjalla um mál kröfuhafanna því að það er þar til umræðu. Þetta er eins og að einn viti ekki hvað annar er að gera. Ríkisvaldið er ekki eitt. Þau eru tólf, ríkisvöldin. Það er mjög hættuleg staða þegar þjóðin byggir á því að allir vinni saman, mjög hættuleg staða.