136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt sem hv. þingmaður ber mér á brýn að ég hafi sagt að Íslendingar ættu að borga þetta af einhverri ótvíræðri lagaskyldu. Það er bara alls ekki þannig. Ég nefndi áðan í ræðu minni, ef hv. þingmaður hefði heyrt það, að það væri mjög tvíbent hvernig þessi lagaþáttur væri.

Það er ljóst að túlkun hans mundi valda því að tilskipunin næði ekki gildi sínu. Þ.e. ef ríkið gæti sagt: Við gerðum alveg nóg til að leiða þetta í lög en það eru bara engir peningar — þá væri tilskipunin einskis virði. Hún væri einskis nýt og mundi leiða til öngþveitis á fjármálamörkuðum ef ríkið gæti með þeim hætti komist undan þeirri ábyrgð. Það stóð íslenskum stjórnvöldum næst að tryggja að innstæða væri þarna inni. Það stóð íslenskum stjórnvöldum næst að auka þá á inngreiðsluskyldu. Það stóð íslenskum stjórnvöldum næst að reyna að hafa hemil á athafnaglöðum útrásarvíkingum, líkt og forsvarsmönnum Landsbankans, eins og reynt var að gera.

Virðulegi forseti. Íslendingar geta ekki með einhverjum einföldum hætti hlaupist burt frá þessari skyldu. Hv. þingmaður nefndi áðan að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fyrirgreiðsla hans hefði ekki orðið að veruleika vegna þessa máls. Hinn kaldi raunveruleiki málsins sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir er að þau urðu að velja meiri hagsmuni fyrir minni. Hv. þingmaður hefur aldrei borið fram aðra lausn í þessu máli, nema hún væri þá að sitja bara og bíða, láta hin aðildarríkin taka samninginn úr gildi gagnvart Íslandi. Það hefði verið næsta skrefið vegna þess að hin aðildarríkin líta svo á að í þessu felist að Ísland tryggi ekki á réttan hátt framgang tilskipunarinnar og sé þess vegna brotlegt gagnvart EES-samningnum. Það er einfaldlega þeirra réttur að hafa þá lögfræðilegu túlkun á tilskipuninni. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa mjög góða grein eftir Helga Áss Grétarsson lögfræðing (Forseti hringir.) í Fréttablaðinu í dag þar sem hann fjallar einmitt um að það eru tvær hliðar á þessu máli en ekki bara ein, eins og hv. þingmaður reynir alltaf að halda fram.