136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:28]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu. Með tillögunni leitar ríkisstjórnin heimildar Alþingis til að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli viðmiða sem aðilar komu sér saman um.

Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn ráku allir víðtæka alþjóðlega starfsemi fyrir bankahrunið. Samkvæmt skýrslum Fjármálaeftirlitsins frá 3. júlí í ár voru starfsstöðvar bankanna alls 73 í 28 löndum. Eins og fram hefur komið í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar komu gestir til viðtals hjá nefndinni. Í viðræðum við aðila frá skilanefnd Kaupþings kom fram að ekki er líklegt að reyni á Tryggingarsjóð innstæðueigenda vegna skulda Kaupþings. Það er mikið fagnaðarefni. Eignir Kaupþings erlendis munu að öllum líkindum standa undir kröfum vegna Kaupþingsinnstæðureikninganna. Sem kunnugt er var Glitnir ekki með sambærilega reikninga þegar bankahrunið varð og er því ólíklegt að reyni á tryggingarsjóðinn í því uppgjöri sem í gangi er varðandi Glitni. Eftir standa Icesave-reikningar Landsbankans. Því má segja að þingsályktunin sem við fjöllum um varði pólitískt umboð til handa ríkisstjórninni til lausnar á þeim gríðarlega vanda sem Icesave-reikningunum fylgja á grundvelli sameiginlegra viðmiða samningsaðila sem þegar hafa verið skilgreind.

Í því ljósi vil ég ræða þrennt sem vert er að skoða í þessari umræðu: Fyrst vil ég ræða harkalegar aðgerðir Breta gagnvart okkur Íslendingum í kjölfar bankahrunsins, í öðru lagi fjármögnunarkostnað íslenska ríkisins í nánustu framtíð og að lokum samningana fram undan.

Virðulegi forseti. Fyrst um beitingu hryðjuverkalaganna. Klukkan 10 að morgni þann 8. október sl. beitti breska ríkisstjórnin hryðjuverkalögum gegn Landsbanka Íslands undir yfirskriftinni „The Landsbanki Freezing Order 2008“ á grundvelli hryðjuverkalaga frá árinu 2001. Yfirvöld frystu eignir bankans og birtu nafn hans á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins á lista með 14 öðrum aðilum, bæði þjóðum og hryðjuverkasamtökum. Nafn Landsbankans var birt á sama lista og al Kaída og talíbanar, Burma/Mjanmar, Norður-Kórea og Íran. Síðar um daginn sagði fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling eftirfarandi í BBC-útvarpinu, með leyfi forseta — og ég ætla að vitna orðrétt í enska textann:

„The Icelandic government, believe it or not, have told me yesterday they have no intention of honouring their obligations here.“

Hann segir að íslensk stjórnvöld ætli sér ekki að standa við skuldbindingar sínar.

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, lét hafa eftir sér eftirfarandi, með leyfi forseta — og ég vitna aftur í enska textann:

„We are freezing the assets of Icelandic companies in the UK where we can.“

Ég leyfi mér að undirstrika þetta: „Icelandic companies“, þ.e. öll íslensk fyrirtæki.

„We will take further action against the Icelandic authorities“ — ég undirstrika það einnig, „Icelandic authorities“, íslenska ríkisstjórnin — „wherever that is necessary to recover the money.“

Þessi yfirlýsing Gordons Browns fjallar um að frysta eigi eignir allra íslenskra fyrirtækja í Bretlandi og jafnvel eignir og hagsmuni íslenskra stjórnvalda.

Þessi beiting hryðjuverkalaga og orð breskra ráðamanna ollu verulegu uppnámi og mikilli óvissu meðal Íslendinga og einnig meðal þeirra erlendu aðila víða um heim sem áttu eða höfðu átt í viðskiptum eða samvinnu við Íslendinga. Aðgerðir breskra yfirvalda gegn Íslendingum eru í raun bæði óhugsandi og ótrúlegar í því samfélagi þjóða sem hefur þróast á undanförnum árum í hinum vestræna heimi. Bretar eru ekki einungis nágrannaþjóð okkar í Evrópu heldur vinaþjóð okkar til margra alda. Við höfum átt samskipti við Breta í gegnum aldirnar. Bretar eru samstarfsþjóð okkar víða, m.a. í Evrópuráðinu og í NATO. Vinaþjóð okkar í NATO hefur sett okkur Íslendinga, vopnlausa þjóðina, á lista með al Kaída. Fyrir slíku eru engin fordæmi og aðgerðin verður að teljast afar harkaleg þegar haft er til hliðsjónar að innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans voru einungis 0,5% af heildarinnstæðum á breskum bankamarkaði.

Ekki nóg með það. Bretar gengu lengra og beittu einnig sérstakri bankalöggjöf gegn breska bankanum Singer & Friedlander sem var í eigu Kaupþings þannig að breska fjármálaeftirlitið tók bankann yfir að því er virðist vegna þess að eigendur voru íslenskir. Það reyndist afdrifaríkt þar sem Kaupþing, stærsta fyrirtæki okkar Íslendinga, féll í kjölfarið. Sagan á vonandi eftir að leiða í ljós þær afleiðingar sem raktar verða beint til aðgerða Breta gegn okkur Íslendingum og þá á ég einkum við þetta þrennt: Beitingu hryðjuverkalaga, skaðlegar yfirlýsingar breskra ráðamanna og yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins á Singer & Friedlander strax í kjölfar bankahrunsins. Þó má vera ljóst að afleiðingarnar hafa verið hrikalegar og kæmi ekki á óvart að niðurstaðan verði sú að með gerðum sínum hafi Bretar náð að dýpka þá hrikalegu kreppu sem við, allir Íslendingar, upplifum nú á eigin skinni. Með því að setja Ísland á hryðjuverkalistann færist tortryggni á allar gerðir Íslendinga með þeim afleiðingum sem slíkt vekur m.a. í viðskiptum manna á milli.

Viðskipti eru í eðli sínu alþjóðleg að miklu leyti og því fundu íslensk inn- og útflutningsfyrirtæki mjög fljótt fyrir afleiðingum gerða Bretanna. Fjármagnsflutningar voru umsvifalaust heftir til og frá landinu, erfitt var að útvega gjaldeyri og margir erlendir birgjar, ekki bara breskir heldur aðrir erlendir birgjar, fóru fram á staðgreiðslu fyrir vörur sem átti að flytja til Íslands jafnvel í þeim tilvikum sem áratuga farsæl viðskiptasaga var til staðar milli íslenskra fyrirtækja og viðkomandi birgja.

Í fyrri hluta október skapaðist því neyðarástand í landinu sem beinlínis má rekja til afleiðinga af aðgerðum Breta gegn okkur. Um tíma var t.d. óljóst hvort nauðsynleg lyf bærust til landsins. Við munum líklega síðar fá vitneskju um hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn Íslandi og sömuleiðis munu þær afleiðingar sem rekja má beint til þess að þeim var beitt verða betur þekktar þegar nánari greining hefur átt sér stað.

Virðulegi forseti. Mikilvægt hefði verið að finna ásættanlega lausn á vandanum áður en gripið var til þeirra ráða sem hér hafa verið rakin. Skaðinn er skeður og nú fáum við tækifæri til að finna lausn í málinu sem báðir aðilar geta verið fullsæmdir af. Við stöndum nú frammi fyrir því að semja við Breta og reyndar fleiri um innstæðutryggingarnar og ekki má gleyma því að fjölmargir innstæðueigendur og viðskiptavinir Landsbankans í þeim löndum sem samningar munu ná til eiga um sárt að binda vegna eignamissis sem varð við hrun bankans. Eignamissirinn er þungbær og Íslendingum finnst leitt að horfast í augu við að íslenskt fyrirtæki var áhrifavaldur í þar. Þrátt fyrir það tel ég það óréttlátt að íslenskur almenningur greiði þann eignamissi þannig að róðurinn þyngist enn frekar í þeim erfiðleikum sem á dynja. Ljóst er að nógar eru þær byrðar sem við berum sökum falls bankakerfisins þótt ekki bætist þar á. Því skiptir það afar miklu máli að finna leið til að hámarka eignir Landsbankans erlendis þannig að þær eignir dekki skuldbindingarnar vegna Icesave-reikninganna að sem mestu ef ekki öllu leyti.

Þá vík ég að öðrum þætti sem ég vildi nefna. Það er uppbyggingarstarfið sem fram undan er og fjármagnskostnaðurinn sem við þurfum að bera sem þjóð. Það er mikið uppbyggingarstarf fram undan í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins. Við blasir að skuldir ríkissjóðs hafa þegar margfaldast miðað við það sem áður var þótt Icesave-deilan eða -reikningarnir séu ekki teknir með í reikninginn. Skuldir ríkissjóðs hafa þegar margfaldast, skaðinn er þegar skeður með hruni bankanna.

Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs á næstunni vegna hrunsins er fyrst og fremst til kominn vegna þriggja þátta: Í fyrsta lagi þarf að fjármagna hallarekstur sem fram undan er á fjárlögum næstu ára. Áætluð þörf eru 470 milljarðar kr. Í öðru lagi er um að ræða endurfjármögnun bankanna. Áætluð þörf er á bilinu 350–385 milljarðar kr. Í þriðja lagi þarf að endurfjármagna Seðlabankann sem samsvarar líklega um 150 milljörðum kr. Gera má ráð fyrir að þessar upphæðir geti því verið á bilinu 900–1.000 milljarðar með töluverðri óvissu þó. Við vitum t.d. ekki hver hallarekstur ríkissjóðs verður í raun á næstu árum. Ef vel gengur að styðja við atvinnulífið, halda uppi atvinnustigi, efla nýsköpun og nýta auðlindir, dregur úr hallanum. Það er nefnilega tekjumyndunin og uppbyggingarstarfið fram undan sem skiptir sköpum þegar við ræðum þessar upphæðir. Einnig kemur til greina varðandi endurfjármögnun bankanna hér á landi að erlendir kröfuhafar eignist hlut í þeim. Þar með mundi fjármögnunarþörf ríkissjóðs minnka til muna vegna endurfjármögnunar bankanna.

Við verðum að sjálfsögðu að auka útflutning, að tryggja að atvinnustigið verði sem hæst. Að öðru leyti mun ríkissjóður fjármagna ofangreinda þætti með útgáfu skuldabréfa. Það getum við alveg, Íslendingar, og ég tala ekki um ef okkur tekst að ná upp sóknarleik varðandi atvinnuuppbyggingu á sama tíma og við erum í þessum öldudal. Ég veit að við stöndum frammi fyrir atvinnuleysi og ég veit að það á eftir að aukast en að sama skapi verðum við að tryggja að atvinnuuppbygging eða atvinnuumhverfi sé eins hagstætt og mögulegt er.

Eftir að hafa greint frá því sem þarf að fjármagna á næstunni eru ótaldar skuldir vegna láns sem við fáum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og láns sem við fáum frá öðrum þjóðum í kjölfarið en eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í morgun er ekki meiningin að draga á þau lán að neinu marki. Þó er óvíst hvað gert verður.

Í ljósi þeirra gríðarlegu fjármuna sem þættirnir sem hér hafa verið raktir munu kosta okkur er ekki mikið svigrúm fyrir ríkissjóð til að fjármagna Icesave-innstæðureikningana. Því er afar mikilvægt að vanda til þeirra samningsmarkmiða sem við leggjum upp með og skoða vandlega þau atriði sem rakin eru í viðmiðunum sem liggja til grundvallar samningsviðræðunum.

Að lokum vildi ég nefna þriðja þáttinn en það eru samningarnir fram undan. Þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu fylgja athugasemdir í þremur liðum: Fyrst er lagaleg afstaða, í öðru lagi pólitísk staða og í þriðja lagi niðurstaða íslenskra stjórnvalda. Eins og fram hefur komið var lagatúlkun íslenskra stjórnvalda hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli, svo og af Evrópusambandinu.

Ég ætla ekki að fara nánar í það, tími gefst ekki til enda hafa margir farið í það sem þarna er um að ræða. Það kemur glöggt fram í athugasemdunum að lagatúlkun okkar, íslenskra stjórnvalda, var hafnað. Í þingsályktunartillögunni segir einnig, með leyfi forseta:

„Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.“

Í þriðja lagi kemur fram í þingsályktunartillögunni varðandi niðurstöðu íslenskra stjórnvalda að hafa beri í huga að mati ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„... að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni.“

Svo mörg voru þau orð í athugasemdum með þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér.

Umsamin viðmið eru líka birt í þingsályktunartillögunni eða með henni sem fylgiskjal. Þau liggja til grundvallar samningaviðræðum þeim sem nú fara í hönd og snúast fyrst og fremst um að ná pólitískt ásættanlegri lausn í deilunni. Við verðum að reyna að leysa vandann, finna lausn sem allir geta sætt sig við. Lausn vandans hlýtur m.a. að felast í því að það náist að hámarka virði eigna Landsbankans sem nú eru frystar í útibúum gamla bankans í Bretlandi. Langstærsta hagsmunamálið í stöðunni er að mínu mati hversu mikils virði þær eignir eru og hversu vel þær geta staðið undir skuldbindingum.

Fram hefur komið hjá fyrrum eigendum bankans að eignir ættu að standa undir skuldbindingum vegna Icesave. Það er vissulega háð mikilli óvissu en ég vil leyfa mér að vera bjartsýn og benda á að fram hefur komið að verðmæti eigna Landsbanka Íslands erlendis sé um 1.743 milljarðar kr. en reiknað er með að nást megi verðmæti sem nema um þúsund milljörðum. Þar skeikar miklu, þar er mikil óvissa. Þess vegna endurtek ég að endanlegt virði eigna Landsbankans skiptir okkur afar miklu máli og við verðum að ganga þessa samningaleið. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að um 150 milljarðar geti mögulega fallið á ríkissjóð. Von mín er að með því að hámarka virði eignanna í Landsbankanum erlendis geti jafnvel verið um lægri upphæð að ræða.

Ef við lítum til reynslu Svía þegar þeir gengu í gegnum bankakreppu í upphafi 10. áratugar síðustu aldar var eitt af leiðarljósum þeirra í kreppunni að hámarka virði eignanna. Í því samhengi fengu sænsk yfirvöld sér til aðstoðar bandarísk sérfræðifyrirtæki sem sérhæfðu sig í að hámarka verðmæti eigna. Um er að ræða eignaumsýslufyrirtæki eða „assets management companies“. Þau eru vissulega misgóð þessi fyrirtæki en einhver þeirra reyndust Svíum afar vel og því ætti að vera hægt að feta í þá slóð.

Ég hef ekki tækifæri (Forseti hringir.) til að fara í viðmiðin sem eru til grundvallar í samningsviðræðunum en ég vil hvetja okkar fólk til dáða og þá sérstaklega (Forseti hringir.) við að reyna að hámarka virði eigna Landsbankans.