136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

ábyrgð á Icesave-reikningum í Bretlandi.

[13:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst svolítið einkennilegt af hv. þingmanni að þráspyrja um sama hlutinn. Það getur varla verið skýrara svar en að gefa eitt orð, svarið „nei“ við því hvort ég vissi hvort komið hefði tilboð frá breska fjármálaeftirlitinu um að hægt væri að flytja Icesave-innstæðurnar gegn 200 millj. punda tryggingu. Nei, ég veit ekki um svona tilboð. Ég hef ekki fengið svona tilboð, veit ekki til þess að aðrir hafi fengið það heldur. Svarið getur ekki verið skýrara en það.

Varðandi síðari spurninguna þar sem fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, spyr mig um 200 millj. punda lán verð ég líka að segja að ég á afskaplega erfitt með að setja mig inn í hugarheim þeirra sem beita hryðjuverkalöggjöf í tilfellum eins og þessum. Kannski er það þess vegna sem ég orða það svo að ég hafi „talið“ að hann væri að tala um þá fyrirgreiðslu sem Landsbankinn hafði beðið um hjá Seðlabankanum og fékk ekki. Ég veit ekki meira um það. Ef hv. þingmaður vill vita eitthvað meira um það verður hún að spyrja breska fjármálaráðherrann en ég taldi þegar ég svaraði honum í mínu samtali að hann hefði verið að vísa til þessarar beiðni sem ég veit ekki betur en að Seðlabankinn hafi fengið og Landsbankinn veitti ekki. Hafi verið um einhverjar aðrar 200 millj. punda beiðnir að ræða veit ég ekki um þær en veit ekki til þess að tenging hafi verið á milli þeirrar 200 millj. punda beiðni sem ég var að vísa til og þess að hægt væri að flýta tilflutningi á Icesave. Þegar þau mál voru í umræðunni þessa dagana var búið að hafna því að Landsbankinn fengi flýtiflutning á innstæðunum til Icesave.

Getur þetta verið eitthvað skýrara en ég er að reyna að gera það fyrir hv. þingmann?