136. löggjafarþing — 49. fundur,  10. des. 2008.

meðferð sakamála.

217. mál
[15:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála. Í frumvarpinu er lagt til að embætti héraðssaksóknara verði sett á stofn 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2009. Er frumvarpið liður í sparnaðaraðgerðum dóms- og kirkjumálaráðuneytis fyrir árið 2009.

Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, taka gildi 1. janúar 2009 og leysa þau af hólmi lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Í hinum nýju lögum er m.a. mælt fyrir um að sett skuli á fót embætti héraðssaksóknara og verður það nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Í kostnaðarmati því sem fylgdi frumvarpi til laga um meðferð sakamála kemur fram að ef frumvarpið verður að lögum leiði það til 62 millj. kr. hækkunar rekstrarkostnaðar á þessu sviði dómsmálaráðuneytisins. Einnig var gert ráð fyrir að við stofnun embættisins félli til tímabundinn stofnkostnaður sem næmi um 10 millj. kr. Gerði kostnaðarumsögnin þannig ráð fyrir að því að viðbótarútgjöld á ársgrundvelli næmi 72 millj. kr.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir 35 millj. kr. fjárveitingu. Að auki fer nú fram endurskoðun á fjárlagafrumvarpinu með því markmiði að ná fram sparnaði á útgjöldum ríkisins.

Í ljósi framangreinds legg ég til að frestað verði um eitt ár að setja embætti héraðssaksóknara á fót. Ákvæði laga um meðferð sakamála taki að öðru leyti gildi 1. janúar 2009.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.