136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[17:23]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka formanni allsherjarnefndar og nefndarmönnum öllum í hv. allsherjarnefnd fyrir afskaplega góða og vandaða vinnu við úrvinnslu á því frumvarpi sem hér er til meðferðar.

Það mátti öllum vera ljóst að meðferð þessa máls, undirbúningur allur og úrvinnsla í þinginu, væri mjög vandasamt verkefni. Við erum að fást við mjög óvenjulegar aðstæður í íslensku samfélagi þar sem kallað er á eftirlitshlutverk Alþingis, kallað er á að Alþingi grípi til þeirra úrræða og þeirra ráða sem við höfum í lögum til að rannsaka atburði og framkvæmd mála á sviði bankaviðskipta og fleiri atriða sem aldrei hefur verið fengist við á Íslandi. Þess vegna var mjög mikilvægt þegar samkomulag náðist milli forseta Alþingis og formanna allra stjórnmálaflokkana að flytja það frumvarp sem hér er til meðferðar.

Allsherjarnefnd hefur farið yfir málið og fékk samkvæmt nefndarálitinu á sinn fund fjölmarga sérfræðinga sem gefið hafa umsagnir. Allsherjarnefnd hefur unnið úr þeim athugasemdum og umsögnum með þeim hætti sem birtist í breytingartillögunum. Ég tel sem 1. flutningsmaður þessa frumvarps að vel hafi tekist til. Til þess eru störfin á Alþingi og til þess er vinnan í nefndum að grandskoða alla hluti sem hingað berast í formi frumvarpa og tillagna og ég tel að þær breytingartillögur og það nefndarálit sem hér liggur fyrir sýni svo ekki sé um villst hversu vel er unnið í þinginu. Fyrir það vil ég þakka sem 1. flutningsmaður frumvarpsins og vænti þess að okkur megi auðnast að afgreiða frumvarpið og koma þeirri framkvæmd á sem það gerir ráð fyrir þannig að góð sátt verði um það áfram í þinginu og að því verkefni verði sem fyrst lokið, sem vissulega er mjög vandasamt. Ég vil ekki draga neitt úr því.

Ég vona hins vegar að okkur takist að fá gott fólk til starfa í þeim nefndum sem að þessu máli eiga að koma og að við fáum góða sérfræðinga til starfa fyrir rannsóknarnefndina og með henni þannig að við komumst að hinni sönnu niðurstöðu um fall bankanna og tengda atburði. Ég endurtek þakkir fyrir gott starf af hálfu allsherjarnefndar.