136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

neyðarráð embættismanna og sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

[10:55]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er ekki til neitt í okkar kerfi sem heitir neyðarráð en að sjálfsögðu er starfandi samráðshópur embættismanna úr helstu stofnunum og ráðuneytum sem kemur að þessum vanda sem hefur verið að fást við. Auðvitað segir það sig sjálft. Hópur ráðherra hefur síðan borið meginþungann og ábyrgðina á þeirri vinnu.

Hvað varðar sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins eða þá hugmynd að færa bankaeftirlitið aftur inn í Seðlabankann sem það mál snýst raunverulega um er því til að svara að sú hugmynd er enn til athugunar. Hún er allra góðra gjalda verð, eins og áður hefur komið fram af minni hálfu, en þetta er eilítið flóknara mál en menn kannski héldu og kallar á lagabreytingar sem verður ekki komið við fyrir áramót svo ég svari spurningu hv. þingmanns hvað það varðar.