136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:40]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti einmitt á eitt atriði sem er þungamiðja í því sem ég var að tala um í ræðu minni. Hann benti á millifærslur sem væru upp á 200 milljarða. Sumar af þessum millifærslum eru að sjálfsögðu mikilvægar, ég er ekkert að draga úr því, en ég var að benda á að þarna þyrfti að fara ofan í og skoða hlutina með tilliti til þess að draga úr og taka út ónauðsynleg ríkisútgjöld. Ég gat heldur ekki séð annað en að við ættum fulla samstöðu um þau atriði sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi varðandi þá sparnaðarliði sem hann talaði um. Ég vil ganga enn lengra og ekki skal standa á mér að knýja á um að þannig verði staðið að málum í Frjálslynda flokknum að vinna að aðhaldi og sparnaði á öllum sviðum í ríkisrekstrinum. Við megum þó aldrei gleyma því að hafa mannúðina að leiðarljósi og hafa öryggiskeðjuna í þjóðfélaginu virka og styrka þannig að hver einasti þjóðfélagsþegn geti treyst á velferðarkerfið ef á bjátar. Það er frumforsendan. Við þurfum að búa við innra og ytra öryggi og við þurfum að búa við fullkomið velferðarkerfi. En velferðarkerfið á að vera fyrir þá sem þurfa á því að halda ekki fyrir hina sem hafa ekkert með það að gera. Það er grundvallaratriði og því miður hefur að hluta verið byggt upp velferðarkerfi sem kostar of mikið og veitir of litla velferð.