136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:28]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Vissulega var aðgerð Breta, að beita Íslendinga hryðjuverkalöggjöf, fullkomlega ófyrirgefanleg eins og ég reyndar sagði í því BBC-viðtali sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til. Það á ekki að leita sökudólga á Íslandi í því máli eins og mér heyrðist tilhneiging til í máli hv. málshefjanda. En hún gat þess að fram hefði komið í breska þinginu að fólk vildi kenna því um í Bretlandi að Íslendingar og sérstaklega þáverandi forsætisráðherra sem hér stendur hefði lýst því yfir og öll ríkisstjórnin að við mundum tryggja allar innstæður í bönkunum á Íslandi. Ég vissi ekki betur en um slíka yfirlýsingu hefði verið alger samstaða á Alþingi og hún var auðvitað lykilatriði til að koma í veg fyrir það að íslenska innlenda bankakerfið mundi hrynja. Það var algert lykilatriði að lýsa því yfir. Og ef menn halda að það hafi haft einhver áhrif á stöðu erlendu kröfuhafanna í Landsbankanum eða hinum bönkunum þá er það bara misskilningur og enn meiri misskilningur ef menn hafa nýtt það sem ástæðu fyrir því að grípa til þessarar löggjafar. Þetta er alger fjarstæða. Menn verða að setja sig inn í stöðu mála á Íslandi á þessum tíma til að skilja hversu mikilvægar þær yfirlýsingar okkar voru að við mundum verja innstæður í íslenskum bönkum og jafnvel þó að það væru prófessorar uppi í háskóla sem stóðu þar og æptu hástöfum: Bankarnir eru að hrynja, bankarnir eru að hrynja. Með þeim afleiðingum að fólk rauk í bankana til að taka þar út peninga. Þetta verður allt saman rannsakað og þetta mun allt saman koma í ljós.

Varðandi samtöl mín við forsætisráðherra Bretlands þá er auðvitað því til að svara að ég gerði tilraun til að ná í hann 9. október en talaði í staðinn við fjármálaráðherrann. Ég hafði talað við hann 5. október fyrir hrunið en reyndi auðvitað að ná í hann daginn eftir að hrunið varð en úr því gat ekki orðið og því orðaði ég það þannig sem ég gerði í þessu viðtali. Ég hefði kannski átt að fylgja því eitthvað meira eftir en ég taldi nægilegt að tala um þetta við fjármálaráðherrann úr því sem komið var.