136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:27]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil alls ekki halda því fram að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að draga lappirnar í þessu máli og síst að halda því fram að starfsfólk hans hafi verið að gera það, það er fjarri mér. Þetta er hins vegar með talsvert öðrum blæ en ég veit að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hefðu viljað og kannski hefur sá tími sem liðinn er farið í eitthvert tog þar á milli. Ég ætla ekki frekar en hæstv. fjármálaráðherra að blanda mér í núning á milli núverandi stjórnarflokka í þessum efnum, en vil hins vegar leggja áherslu á að hér er að hluta til um aðra hluti að ræða en upphaflega var lagt upp með.

Ef fjármunir eru teknir út úr kerfinu og þeir settir í þessi hagrænu áhrif sérstaklega fara þeir ekki í það að leysa skuldavandann, en þeir hafa þá sömu áhrif á fjárhagsstöðu kerfisins og fjárhagsstöðu lífeyrissjóðanna sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er annt um, ég virði það. En þá fara þessir hlutir í annað en þeir gætu farið í og stærri hluti gæti farið í að leysa skuldavanda þeirra sem eru í erfiðleikum.