136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:46]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún á rétt á sér og ég vil taka undir það sem í henni kemur fram. Vandamálin þarf leysa varðandi heilbrigðisstofnunina á Suðurnesjum. Það hafa lengi verið tiltekin vandamál en þetta er stór og myndarleg stofnun sem hefur burði og húsnæði og aðstöðu til að gera vel fyrir þá íbúa sem þarna búa og horft hefur verið til þess að stofnunin geti þjónað víðar á þessu svæði.

Ég fagna því að nefnd skuli vera sett á stofn af hæstv. heilbrigðisráðherra til að skoða þessi mál. Það kemur kannski eitthvað út úr slíku. En mig langar að skjóta inn lítilli spurningu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja: Er fyrirhugað að einhverjar slíkar nefndir komi þar að málum líkt og nefnt var áðan þannig að fara megi yfir þá starfsemi sem þar er?