136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[16:40]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir allt það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ólafar Nordal og ekki síst um það sem hún kom inn á um samstöðuna sem skiptir miklu máli í þessu. Jafnframt að það skiptir höfuðmáli á þeim dögum sem eftir eru í þinghaldinu að taka fyrir og ræða þau mál sem skipta samfélagið máli, fjölskyldurnar, fyrirtækin. Við verðum að leggja aðaláherslu á þau mál.

Mig langar til að koma með eina litla fyrirspurn til hv. þingmanns vegna þess að hún kom inn á prófkjör í ræðu sinni og lýsti því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að þeim. Ég er alveg sammála skýringunni sem þar kom fram en mig langar að spyrja hvað þingmanninum finnst um að prófkjör allra flokka verði sama dag á sama seðli. Valið yrði á listana með þeim hætti í stað þess flokkarnir héldu allir prófkjör á mismunandi tímum og fólk færi í kross á milli flokka til að taka ákvörðun um hverjir sætu á hinum einstöku listum viðkomandi flokka. Það yrðu sem sagt nokkurs konar forkosningar með einum auðum seðli og menn mundu raða því fólki á lista sem þeir hafa áhuga á að kjósa.

Ég minnist þess að þetta var viðhaft í sveitarfélaginu Ölfusi fyrir 25–30 árum og gafst það vel. En það var einn ákveðinn stjórnmálaflokkur sem sprengdi þetta fyrirkomulag. En nú er spurningin: Er ástæða fyrir okkur á Alþingi að taka upp eða skoða þetta fyrirkomulag?