136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:08]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er auðvitað komin út á nokkuð sérstakan og mjög hálan ís af hálfu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. (Gripið fram í.) Út af fyrir sig er það er ekkert nýtt að í þinginu standi deilur um áhrif frumvarpa eða laga sem verið er að … (ÁI: … dómurinn kom.) eða laga sem hér hafa verið afgreidd. Þarna stendur tiltekin deila og ég held að það sé langeðlilegast að hv. þingmaður sem nú gegnir þeirri ábyrgðarmiklu stöðu að vera formaður viðskiptanefndar taki til við að vinna að þessu máli sem hv. þingmaður talar hér um. (Gripið fram í.) Nú hefur hún tækifæri til þess, hún hafði það líka meðan málið var afgreitt í gegnum samstarfsmann hennar, en það er algerlega rangt að forseti Alþingis þá hafi ekki brugðist við með þeim eðlilega hætti sem forseti getur gert með því að beina til viðkomandi nefndar að skoða málið að nýju.

Ég vísa þessum stóryrðum öllum til föðurhúsanna og vænti þess að hv. þingmaður kynni sér málin betur áður en rokið er upp með þeim orðum og þeirri orðræðu sem hér var viðhöfð.