136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[19:18]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mjög mikilvægt málefni sem í langan tíma hefur verið til meðferðar, fyrst í ríkisstjórn og í stjórnarflokkunum, bæði fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem nú er, og síðan í þinginu og þeirri þingnefnd sem hefur haft með málið að gera. Nú er komið að 3. umr. þannig að ég tel afar mikilvægt að koma inn í umræðuna á lokastiginu til að hvetja til þess að áfram verði haldið með þetta málefni er varðar séreignarsparnaðinn, að þróa þær hugmyndir og hugsanir sem hafa tengst þeim réttindum sem lífeyrissjóðirnir hafa byggt upp með sparnaði fólksins.

Ég vil í byrjun aðeins nefna það að við sjálfstæðismenn höfum lagt mjög ríka áherslu á að hér sé til meðferðar vönduð löggjöf varðandi þetta sparnaðarform. Á sínum tíma höfðu sjálfstæðismenn forustu um að skapa þann lagaramma sem löggjöfin byggir á og þess vegna erum við sjálfstæðismenn mjög áhugasamir um að hér verði ekki rasað um ráð fram hvað þessi mál varðar. Lífeyrissjóðirnir í landinu eru mikið lífsakkeri heimilanna og þess vegna er mjög mikilvægt að stíga ekkert það skref sem getur raskað öryggi þessara eigna launþega í landinu sem lífeyrissjóðirnir fara með.

Ég verð að viðurkenna að umræður í þinginu í dag hafa á stundum ef til vill ekki markast nægilega ríkulega af því að við þurfum að gera allt sem við getum til að hraða afgreiðslu mikilvægustu mála í þágu heimila og atvinnulífsins í gegnum þingið. Fleiri mál þyrftu að sjálfsögðu að koma inn, bæði frá einstökum þingmönnum og ríkisstjórninni, í þeim tilgangi að tryggja sem best hagsmuni fólksins í landinu við þær erfiðu aðstæður sem við búum við í dag.

Ég hef undrast mjög þann málflutning sem fram hefur komið, sérstaklega af hálfu samfylkingarþingmanna, bæði ráðherra og þingmanna, sem nota hvert einasta tækifæri til að gera tortryggilegt það starf sem fram fór á vettvangi fyrri ríkisstjórnar og láta að því liggja að framvindan hafi ekki verið nægilega hröð í verkum fyrri ríkisstjórnar. Út af fyrir sig er ekki mikið um það að segja en mér finnst ekki stórmannlegt að hv. þingmenn Samfylkingarinnar skuli nota hvert einasta tækifæri til þess að reyna að gera tortryggileg störf eigin manna í ríkisstjórn í þeim tilgangi að upphefja þá sem sitja í ríkisstjórn núna.

Í þessari umræðu hefur nokkuð verið rætt um breytingartillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hann hefur lagt mjög mikla vinnu í að skoða hvaða kostir væru bestir til að breyta lögum um lífeyrissjóðina í þeim tilgangi að þeir sem eiga í séreignarsparnaðarforminu gætu nýtt sér þær eignir í lífeyrissjóðunum til að bjarga eigin fjárhag, bjarga fjárhag heimilanna þar sem herðir að vegna skulda, atvinnuleysis, hækkandi vaxta og mikillar verðbólgu sem ógnar afkomu heimilanna.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal er ef til vill sá þingmaður sem þekkir best til á vettvangi lífeyrissjóðanna og á vettvangi fjármálastarfseminnar þannig að sú hv. nefnd sem um þetta mál fjallar hefði þurft að skoða betur breytingartillögur þingmannsins í þeim tilgangi að taka tillit til þeirra. Úr því að ekki var fallist á tillögurnar hefði mátt vinna þær áfram þannig að síðar mætti taka tillit til þeirra og gera breytingar á lögunum að teknu tilliti til þeirra hugmynda sem byggja á því að leggja megináherslu á að skapa skilyrði fyrir eigendur séreignarsparnaðarins til að greiða upp skuldir. Með því að leyfa að taka út úr sjóðunum án þess að það væri sérstaklega merkt á móti skuldum er að mínu mati ekki farin besta leiðin.

Það blasir við að bankahrunið hjá okkur á Íslandi og hrun bankanna um allan heim hefur raskað öllum aðstæðum, öllum stærðum á fasteignamarkaði og á lánamarkaði og því sem varðar verðmat og stöðu heimila. Verðgildi eigna hefur hrapað, lánin hafa hækkað vegna gengisbreytinga og lánin hafa hækkað vegna þess að verðtryggingin hefur lyft þeim upp vegna verðbólgunnar.

Á slíkum óvissutímum sem hafa fylgt bankahruninu er geysilega mikilvægt að standa vel að málefnum er varða lífeyrissjóðina í landinu. Það má ekkert skref stíga sem getur skapað óvissu í kringum lífeyrissjóðina. Það kann að verða enn meira álag á lífeyrissjóðina í landinu núna og á næstu missirum en menn hafa ef til vill gert ráð fyrir vegna þess að atvinnuleysið kann að skapa þau skilyrði að menn fari fyrr á eftirlaun en þeir hefðu gert ef meira atvinnuframboð hefði verið í landinu og ef fleiri atvinnutækifæri hefðu verið í boði. Þannig má búast við því að útstreymi úr lífeyrissjóðunum verði meira en menn höfðu gert ráð fyrir. Á það verður að líta þegar gengið er fram með þær lagabreytingar gagnvart lífeyrissjóðunum sem hér eru til meðferðar.

Þegar þetta sparnaðarform, séreignarsparnaðarformið, var sett á laggirnar var það hugsað til þess að hvetja launþega til að auka sparnað. Við hvöttum fyrir nokkuð mörgum árum til sparnaðar í gegnum skattafslátt tengdan fjárfestingu í hlutafélögum sem varð til þess að mjög margir sköpuðu sér eignir í hlutafélögum og urðu fyrir verulega miklu tjóni þegar hlutafélögin og sérstaklega bankarnir féllu. Margir hafa orðið fyrir tjóni og misst eignir í tengslum við fallið.

Séreignarsparnaðarformið sem byggir á því að bæði launþegi og vinnuveitandi greiði í lífeyrissjóðina er mjög gott og öruggt fyrirkomulag vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa verið reknir þannig, sem betur fer, að þeir hafa getað ávaxtað sitt pund allvel. Séreignarsparnaðarformið hefur ýtt mörgum til þess að auka sparnað og þess vegna eiga mjög margir eignir sem þeir gætu hugsað sér að nýta í vandræðum sínum til að greiða niður skuldirnar.

Ég hefði talið besta kostinn í því fyrirkomulagi sem er til umræðu í dag leiðina sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á, að skapa skilyrði til að færa eign úr lífeyrissjóði beint til lækkunar skulda án þess að peningar færu á milli handa. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni tel ég rétt að skoða það fyrirkomulag áfram þó að sú leið sé valin núna sem meiri hluti nefndarinnar hefur gert hér tillögu um. Þess vegna á ekki að slá loku fyrir það sem möguleika í framtíðinni að leið hv. þm. Péturs H. Blöndals geti verið valin. Ég hvet eindregið til þess að hv. nefnd skoði það mál áfram. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að þetta er meðal þeirra mála sem varða mjög hagsmuni heimilanna, nefndir þingsins þurfa sjálfar að vera mjög vel vakandi og á verði fyrir því með hvaða hætti við getum staðið að breytingum sem koma heimilunum til góða. Þingið á ekki endilega að bíða eftir því að ráðuneytin eða hugmyndafræðingar ráðherranna komi með lausnir, heldur þurfa nefndirnar að vera mjög vel á varðbergi og leiða fram mál eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert hér með breytingartillögum sínum.

Ég fylgdist með því í dag á fundi allsherjarnefndar þar sem ég sat sem varamaður að þar eru fjölmörg mál sem varða hagsmuni heimilanna í landinu og einstaklinga sem hafa lent í greiðsluerfiðleikum. Satt að segja miðar mjög hægt að fá fram þau mál sem varða greiðsluaðlögun og fleira vegna þeirra sem hafa lent í þrotum. Ég tel að þau mál þurfi að vinna eins hratt og nokkur kostur er. Sú löggjöf sem þar var á ferðinni og er til vinnslu í allsherjarnefnd þarf ásamt með því frumvarpi og breytingartillögum sem hér eru til meðferðar að komast í gegnum þingið sem allra fyrst. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt svo ríka áherslu á það að það mál sem hér er til meðferðar fái vandaða umfjöllun með það í huga að þetta er engin endanleg niðurstaða þó að við samþykkjum hér breytingartillögur sem varða frumvörp og sem verða að lögum. Við þurfum að halda áfram að þróa löggjöf sem varðar lífeyrisréttindin til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum að líta yfir þau fjölmörgu mál sem fyrir þinginu liggja í þeim tilgangi að vanda meðferð þeirra og alla úrvinnslu. Ég er sannfærður um að hv. þingmenn munu leggja sig fram um að leita lausna til hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Það mál sem hér er til lokaafgreiðslu er eitt af þeim og ég minni enn og aftur á að Sjálfstæðisflokkurinn hafði í upphafi forustu um að móta þá löggjöf sem tryggði séreignarsparnaðinn og Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið þessi mál mjög fyrir brjósti (Forseti hringir.) eins og rækilega hefur komið í ljós í þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag.