136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:59]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður reynir að túlka orð hv. þingmanns með vinsamlegum hætti þá er hann að segja að það hafi verið þannig stjórnskipunarkreppa hér á landi að hún hafi verið meðvirkandi þáttur í því hvernig fór í haust. Segjum ekki meira en það, ekki að hún hafi verið orsökin heldur meðvirkandi þáttur.

Dettur einhverjum manni það í hug að þetta mál í haust hefði farið einhvern veginn öðruvísi ef greinin um náttúruauðlindir sem ekki skuli háðar einkaeignarrétti, þ.e. vera þjóðareign, hefði verið í gildi? Dettur einhverjum í hug að þetta hefði farið öðruvísi í haust ef 79. gr. laganna um þjóðaratkvæðagreiðslur frumvarpsins hér hefði verið orðin að stjórnarskrá? Dettur einhverjum í hug að ákvæðin um breytingarnar á stjórnarskránni hefðu haft einhverja þýðingu í því sem gerðist í haust? Auðvitað ekki. Dettur einhverjum manni í hug hér á Alþingi að ef ákvæðin um stjórnlagaþing hefðu verið búin að taka gildi og stjórnlagaþing sæti nú að störfum að það hefði það nokkur minnstu áhrif á það sem gerðist í haust? Ég vona að engum manni detti það í hug því það er svo vitlaust.