136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:23]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við eigum auðvitað mjög erfitt með að borga þessar skuldir vegna Icesave-reikninganna og það verður verk nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar í vor að reyna að semja sig frá þessum skuldum og reyna að semja um sem best lánakjör og helst að semja sig alveg frá þessum skuldum sem verður auðvitað mjög erfitt.

Óvissan um hvað er til af eignum upp í þessar skuldir er með þeim hætti að enginn getur sagt um það, enginn veit hvernig málin þróast næstu tvö, þrjú árin. Það er gaman að rifja upp ummæli þingmanna Vinstri grænna um þessar skuldir og Icesave-reikningana og hvað átti að gera fyrir áramót og svo aftur hvað þeir leggja til að verði gert núna, tveimur mánuðum seinna. Ekki síður ummæli þeirra um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem þeim leist ekkert á fyrir áramót en breyttist á nýju ári. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði, auðvitað eigum við að fara í mál við Bretana. Auðvitað eigum við að fara í mál við þá út af hryðjuverkalögunum og því tjóni sem þeir hafa valdið okkur út af þessum Icesave-skuldum.

Það er eins með sjálfstæðismennina, hvað hafa þeir ekki verið að segja í þessari umræðu? Hvernig höguðu þeir sér þegar bankahrunið varð? Hvað sagði fyrrverandi seðlabankastjóri, sem er átrúnaðargoð þeirra í pólitík, um það að Jón og Gunna ættu ekki að borga skuldir fyrir óráðsíumennina? Hvar erum við stödd í þessu þegar Jón og Gunna í Breiðholtinu þurfa að borga brúsann fyrir misgjörðir (Forseti hringir.) sjálfstæðismannanna?