136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:36]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mjög alvarlegt mál. Við hljótum að spyrja okkur einnar spurningar, Íslendingar allir: Hver er greiðslugeta okkar? Hver er raunveruleg greiðslugeta okkar? Hvað getum við leyft okkur? Mín skoðun á þessu máli er einfaldlega sú að ef við eigum að taka þessar skuldbindingar á okkur, með 5–7% vöxtum eins og menn hafa rætt um, er þetta gjörsamlega út úr kortinu. Það er hægt að ímynda sér og óska þess að þær eignir sem eru til í Bretlandi eða þeim löndum sem Icesave-reikningar voru reknir í gangi upp í eitthvað af þessum skuldbindingum. Það er talað um að þetta séu 600 milljarðar og í besta falli gætum við setið eftir með innan við 100 milljarða. Ég held að eins og staðan er í málinu hljótum við að láta reyna á alla réttarstöðu okkar, hvort við yfirleitt eigum að bera þetta sem ég dreg mjög í efa. Það gæti þó verið vegna þess að fyrri ríkisstjórn hafi ekki sinnt skyldum sínum, ekki viðskiptaráðherra, Fjármálaeftirlit eða Seðlabanki, um að láta uppi sögurnar þar sem bankastarfsemin var rekin um að Íslendingar gætu ekki borið ábyrgð á þeirri stöðu sem þar var komin.

Ég er að vísu ekki löglærður maður en hef reynt að lesa þessar reglugerðir Evrópusambandsins að þessu leyti og fæ ekki annað séð en að ef við Íslendingar hefðum formlega sagt að við gætum ekki axlað þessar ábyrgðir hefði myndast önnur réttarstaða gagnvart þessum ríkjum. Það hljóta löglærðir menn að geta leitt í ljós og vissulega hafa sumir þeirra haldið því fram að réttarstaða okkar í þessu máli væri sú að við þyrftum ekki að borga. (Forseti hringir.)