136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:48]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst það mjög þakkarvert þegar hv. þingmenn koma hér upp og setja fram hugmyndir sem gætu orðið leið til þess að ná samstöðu og þá er ég sérstaklega að tala um það að 31 maður í sex mánuði er eitthvað sem er alveg þess virði að ræða. Það er ekki búið að festa neina ákveðna tölu hvað varðar fjöldann sem mun sitja á hinu margumtalaða stjórnlagaþingi sem ég vona að verði samstaða um að samþykkja frá Alþingi á yfirstandandi þingi.

En aðeins frekar, hæstv. forseti, í sambandi við þessi mál öll. Það eru skiptar skoðanir, því verður ekki neitað, en mér finnst að það sé almenn skoðun þjóðarinnar og þeirra sérfræðinga sem ég hef heyrt setja fram skoðanir á þessu máli að það sé mjög mikilvægt að gera alvöru úr þessum hugmyndum og því sem fram kemur í frumvarpinu. Ég vonast því sannarlega til þess að það geti náðst samstaða um að gera þessa breytingu núna þannig að hægt sé að kjósa til stjórnlagaþings síðar á árinu.

Ég sé ekki hvað er í húfi. Vissulega er umdeilt hversu stórt hlutverk Alþingi á að hafa í þessu öllu saman alveg frá því sem hv. sjálfstæðismenn segja, að Alþingi eigi að vera stjórnarskrárgjafinn (Gripið fram í: Það er það.) en það hefur líka komið fram hjá fulltrúum sem komu til nefndarinnar að Alþingi hafi samkvæmt frumvarpinu jafnvel of mikið vald. Þarna er því gríðarlega mikill munur á skoðunum.

En ég segi bara, hæstv. forseti, að ég geri mér enn vonir um að við náum þeim árangri í nefndinni að við (Forseti hringir.) getum orðið sammála um breytingar.