136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:20]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Það ber ekki allt upp á sama daginn í samgöngumálum á Íslandi. Nú kemur það í hlut hæstv. samgönguráðherra og hv. þm. Jóns Bjarnasonar að skera niður framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun sem ég lagði fram sem samgönguráðherra á sínum tíma og fékk samþykkta á Alþingi. Það er auðvitað erfitt að þurfa að standa frammi fyrir því en svona er tilveran og minnist ég þeirrar umræðu sem hér fór fram þegar samgönguáætlunin var samþykkt.

Hins vegar liggur fyrir að það eru mörg verkefni sem við þurfum að líta til. Samkvæmt samgönguáætlun var gert ráð fyrir að byggja samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll og í samgönguáætlun var sérstök fjáröflun ætluð í það, 1,5 milljarðar árið 2008 og sama upphæð árið 2009. Enn bólar ekkert á þeirri framkvæmd.

Með sama hætti eru fjölmörg verkefni úti um allt land og hér á höfuðborgarsvæðinu sem þarf að sinna. Í svari til hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar frá hæstv. samgönguráðherra kemur fram að mjög fá verkefni og engin tengivegaverkefni eru í undirbúningi núna t.d. í Norðvesturkjördæmi hvað varðar útboð. Tvö verkefni eru nefnd og hv. þingmenn geta skoðað þau hér í þingskjölum, einungis Vestfjarðavegur og brú á Haffjarðará eru nefnd.

Það verður að koma fleiri verkefnum af stað í því kjördæmi. Það eru til fjármunir fyrir þeim. Eitt sem ég vildi nefna alveg sérstaklega og ber að harma lýtur að forgangsröðun, gert er ráð fyrir að skera niður um 180 millj. kr. í umferðaröryggisáætlun á þessu ári, því miður. Ég hef þær tölur staðfestar. Það er skorið niður um 180 millj. kr. í umferðaröryggisaðgerðum á þjóðvegum landsins. Það hefði vafalaust verið nær að hægja á (Forseti hringir.) einhverjum öðrum verkefnum en að skera niður (Forseti hringir.) umferðaröryggisaðgerðir.