136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:07]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið erum við að ræða hér frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 78/2002, lög sem eru orðin nokkurra ára gömul, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar með síðari breytingum. Ég á ekki sæti í iðnaðarnefnd þessa stundina og hef ekki tekið þátt í störfum nefndarinnar. En það eru örfá atriði sem mig langar aðeins að nefna.

Ég tek eftir því að mikið er talað um umhverfisvæna orkuöflun þannig að það sem hér er verið að gera er afskaplega grænt og fallegt áferðar að sjá. En stóri græni flokkurinn er ekki með nokkurn einasta fulltrúa nema frú forseta í þingsal. Það tekur enginn þátt í umræðu af hálfu þess stjórnmálaflokks. (Gripið fram í.) Það kemur mér nokkuð á óvart.

Mig langar aðeins að víkja að þeirri niðurgreiðslu sem hér er til umræðu því í fleiri lögum og fleiri stöðum í fjárlögum eru niðurgreiðslur. Meðal annars eru niðurgreiðslur til ylræktarbænda sem ekki er komið inn á í þessu frumvarpi. Þannig háttar til að þeir hafa fengið niðurgreiðslur til framleiðslu á grænmeti innan lands sem ætti nú að teljast aldeilis umhverfisvæn framleiðsla. Það er okkar græna stóriðja. En nú ber svo við að þrátt fyrir að það séu ákveðnir samningar þá hækkar Rarik gjaldskrá sína gríðarlega frá síðustu áramótum. (Gripið fram í: 25%.) Mig langar, frú forseti, með leyfi, að lesa upp úr bréfi sem ég er með frá Bláskógabyggð hvað þetta varðar en þar segir:

„Byggðaráð Bláskógabyggðar mótmælir þeirri ákvörðun stjórnar Rariks um 15% hækkun verðs á dreifingu og flutningi á raforku frá og með áramótum. Jafnframt hefur verið ákveðið að hækka orkuverð um 7–14%. Ákvörðun ríkisins á skerðingu á niðurgreiðslum á dreifingu rafmagns til garðyrkjubænda ásamt umræddum hækkunum valda því að rafmagnskostnaður ylræktenda eykst um 25–30%. Það er því ljóst að umræddar ákvarðanir koma sérstaklega illa niður á rekstri ylræktenda og setja í raun rekstrarforsendur þeirra í uppnám. Einnig eykur þessi ákvörðun verulega byrðar þeirra heimila sem ekki hafa aðgang að hitaveitu og nýta raforku til húshitunar. Byggðaráð hvetur stjórn Rariks og ríkisvaldið til að endurskoða þessar ákvarðanir.“

Svo mörg voru þau orð sem komu fram í bréfi byggðaráðs Bláskógabyggðar, dagsettu 17. mars. Þetta mál þyrfti að taka inn í þetta frumvarp. Að sjálfsögðu vil ég spyrja hv. flutningsmann hvort nefndin hafi ekkert farið yfir það mál sem bréfið fjallar um, hvort það hafi ekki komið til tals að þessar niðurgreiðslur færu þarna jafnframt því sem hér er í þessu frumvarpi.

Málið snýst nefnilega um hvort hér verði framleitt grænmeti með íslenskri vistvænni orku, þ.e. heitu vatni til upphitunar og raforkunni til lýsingar og að þessi matvæli verði eins fersk og góð og holl og þau eru hér á markaði eða hvort þessi framleiðsla muni falla niður og við þurfum að fara að eyða gjaldeyri til að kaupa slíka vöru annars staðar frá þar sem jafnframt er verið að nota alls konar hjálpar- og aukaefni við framleiðsluna.

Mér finnst afskaplega nauðsynlegt að við fáum svör við þessu þegar verið er að fara yfir frumvarp og lagabálk sem lýtur að nákvæmlega sömu þáttum sem ég er hér að spyrja um. Þess vegna held ég að það sé afskaplega mikilvægt að við fáum dálitla umræðu um þau mál um leið og við ræðum þetta frumvarp.

Ég vil jafnframt beina þeirri spurningu til hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, kollega minna þar, hvort þeir hafi heyrt af þessu máli og hafi jafnvel haft fyrirvara sinn á nefndarálitinu vegna þessa. Það kynni að vera að menn hafi haft hugmynd um þetta.