136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:15]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þegar hér er komið í umræðu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þá er hv. frummælandi Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, að fara að halda ræðu um minnihlutaálit sitt. Það má ekki minna vera en að hæstv. ráðherrar (Gripið fram í.) mæti hér og hlýði á mál hans. Það kom fram hjá hæstv. forseta í gær að hringt hefði verið í viðkomandi ráðherra og þeir hefðu verið vant við látnir. Ekki var gefið í skyn í hverja var hringt, hverjir svöruðu og hverjir töldu sig ekki geta mætt.

Nú vil ég leggja spurningar fyrir forseta. Hefur verið hringt í alla? Hverjir hafa svarað og hverjir munu koma? Hverju hafa viðkomandi ráðherrar svarað um það hvort þeir ætli að vera hér í þingsal? Því það skiptir máli og sýnir virðingu þeirra (Forseti hringir.) við stjórnarskrána og við Alþingi hvort þeir ætla að (Forseti hringir.) mæta eða mæta ekki og hvaða ástæður þeir tilgreina (Forseti hringir.) fyrir því að mæta ekki í fundarsal Alþingis (Forseti hringir.) og fylgjast með talsmanni (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins tala um stjórnarskrá (Forseti hringir.) lýðveldisins.