136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:34]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ljóst er að við Íslendingar stöndum frammi fyrir gríðarlegu verkefni eftir þetta mikla hrun sem átti sér stað. Ef einhvern tíma er ástæða til að stjórnmálaflokkar reyni að starfa saman að því að ná árangri er það við aðstæður eins og nú eru. Það leikur ekki nokkur vafi á því. Það er þó annað mál að ekki hefur tekist að koma málum í slíkan farveg, sennilega er ekki nægilega mikill vilji til þess. Mér verður oft hugsað til þess hvernig við Íslendingar tókum á annan hátt á málum en t.d. Norðmenn, og þá er ég að hugsa um Norðmenn og þeirra mikla olíusjóð. Auðvitað er það sem hér var á þenslutímanum ekki sambærilegt við olíusjóðinn en engu að síður gaf fjármálakerfið gríðarlegar tekjur í ríkissjóð á meðan það var í blóma. Engum datt í hug að þeir atburðir gætu átt sér stað sem urðu, en ég trúi því að Norðmenn hefðu við aðstæður eins og þær sem við stóðum frammi fyrir ekki notað alla þá peninga sem runnu inn í ríkissjóð í eintóma eyðslu, þenslu og útgjöld heldur tekið öðruvísi á málum. Ekki var um það að ræða hér á Íslandi að það yrði gert og þar ber Sjálfstæðisflokkurinn gríðarlega mikla ábyrgð. Ég held því samt ekki fram að tökin hafi ekki verið orðin laus strax á tímum Framsóknarflokks í ríkisstjórn fyrir kosningarnar 2007. Lausatök voru á síðustu mánuðum fyrir kosningar og það var eins og allt væri hægt og peningum var eytt í allar áttir, ég tala nú ekki um ástandið þegar ríkisstjórn var mynduð eftir kosningarnar 2007 af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Það var bókstaflega allt gert sem mönnum datt í hug og peningum svoleiðis eytt og spennt í allar áttir. Þetta er að koma okkur í koll núna þegar við stöndum frammi fyrir þessum gríðarlega tekjumissi og okkur hefur ekki tekist að minnka kerfið í samræmi við það og það verður ekki auðvelt.

Það sem ég óttast kannski mest núna er að eftir þetta hrun verði stemning fyrir því að fara algjörlega í hina áttina og hætt verði að hugsa um mikilvægi samkeppnishæfni Íslands, sem hefur verið grundvallarpólitík a.m.k. í huga framsóknarmanna, og við stígum skrefið svo langt til baka að frjáls viðskipti verði ekki (Forseti hringir.) ofarlega á stefnuskrá þeirra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem verða hér við völd á næstunni. Það væri mjög miður.