136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel þetta vera mikið gleðiefni og reyndar höfðu þessar upplýsingar komið fram í dagblöðum í dag, þ.e. að skýrsluhöfundar, þingmenn í breska þinginu, hefðu komist að þessari niðurstöðu. Það er verulega ánægjulegt að vita af þessu og veitir ekki af fyrir okkur Íslendinga að fá einhverjar jákvæðar fréttir inn á milli í þeim hremmingum sem við erum í.

Fleiri skýrslur hafa verið að birtast upp á síðkastið sem ástæða væri til að ræða hér á þingi. Ég nefni sem dæmi skýrslu Finnans sem starfaði fyrir íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við úttekt á því hvort lagaumhverfið hér á landi hefði valdið því að fór sem fór í bankakerfinu. Niðurstaðan er sú að lagaumhverfið hafi verið í samræmi við það sem gengur og gerist í Evrópu og á hinum alþjóðlega (Forseti hringir.) markaði. Það voru því líka gleðifréttir alla vega fyrir þá sem stóðu að (Forseti hringir.) lagasetningunni á þeim tíma.