136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:30]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég er ekki sérstaklega „imponeraður“ af þessum tölum sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir bar á borð fyrir okkur um þátttöku stjórnarliðsins í umræðunni. Hún þurfti að seilast alveg til 1. umr. til að leggja fram einhverjar bitastæðar tölur. Það kom mér hins vegar á óvart að hún kvartaði yfir því að við sjálfstæðismenn hefðum raðað okkur svo þétt á mælendaskrána að væntanlega kæmust stjórnarliðar ekki að fyrir okkur. En tvívegis með nokkurra mínútna millibili hefur verið lesin upp grein úr þingsköpunum þar sem segir að forseti geti raðað þannig á mælendaskrá að andstæð sjónarmið komi fram á víxl. Það er því alveg augljóst að það á ekki að standa í vegi fyrir því að stjórnarliðar geti tekið til máls að sjálfstæðismenn hafi raðað sér svona þétt á mælendaskrána. Það er fullkomlega á valdi hæstv. forseta að skjóta stjórnarliðum inn á milli til að svara því sem fram kemur hjá okkur sjálfstæðismönnum.