136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:39]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg augljóst með tilliti til hinnar venjulegu orðræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að hann er mér í raun og veru miklu meira sammála en hann vill vera láta. Hann er vanur að taka betur til í orðræðu hér en hann gerði. Ástæðan er sú að hann er í rauninni (Gripið fram í.) sammála því að svona eigi ekki að standa að málum, að tryggja ekki fjármuni. Sjálfstæðismenn og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eru algerlega sammála um það að við eigum ekki að standa þannig að málum að gera ráð fyrir lántökum. Við eigum að tryggja fjármuni til að hægt sé að fjölga fólki á listamannalaunum. Ég er alveg sannfærður um það, ekki síst með tilliti til þess að sjálfstæðismenn hafa haft þennan málaflokk í langan tíma og hafa ýtt mjög undir listsköpun og menningarstarfsemi hvers konar. Og stærstu framlögin … (Gripið fram í.) Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir getur aldrei farið hér um salinn öðruvísi en að trufla þingmenn ræðustól. Hún getur það ekki. (Gripið fram í.) En hvað um það. Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir umfangsmiklum menningarsamningum við sveitarfélögin um allt land, stórjók framlög til menningarmála (Gripið fram í.) og m.a. til listsköpunar. Sjálfstæðismenn geta því alveg kinnroðalaust talað um þessi mál vegna þess að við höfum staðið fyrir miklum úrbótum og endurbótum hvað þetta varðar.

Frumvarpið sem slíkt er góðra gjalda vert en grundvöllurinn fyrir tekjuhliðinni er ekki til og þess vegna segi ég: Hæstv. menntamálaráðherra kemur hér rétt fyrir kosningar með þessa tillögu, með stuðningi ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, og það er sýndarmennska, (Forseti hringir.) einber sýndarmennska.