136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:51]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson líkti þeim áformum um útgjöld sem hér er verið að ræða við frestanir vegna framkvæmda á sviði samgöngumála í minni tíð sem samgönguráðherra.

Ég verð að viðurkenna að þetta kom mér svolítið á óvart og rifjaði þá upp að ég held að þær frestanir sem þurfti stundum að fara í hvað varðaði framkvæmdir í vegagerð í minni tíð eru ekki í líkingu við þær frestanir og þann niðurskurð sem hv. þingmaður styður núna á vegum hæstv. núverandi samgönguráðherra, sem eru stærstu niðurskurðaraðgerðir á sviði samgöngumála sem um getur. Heil Sundabraut hverfur eins og dögg fyrir sólu og þar mætti lengi telja.

Þingmaðurinn nefndi hins vegar ekki þegar hann nefndi að það hefði þurft að fresta samgöngumannvirkjagerð í minni tíð, að boruð voru göng í Almannaskarð og Fáskrúðsfjarðargöng urðu að veruleika. Tenging um Háreksstaðaleiðina varð að veruleika þegar norður- og austurhluti kjördæmis hv. þingmanns var tengdur saman. Héðinsfjarðargöng voru opnuð nýlega, þ.e. síðasta sprengingin var framkvæmd. Hver tók ákvörðun um þá framkvæmd? Svo mætti lengi telja.

Mér finnst nú að verið sé að fara yfir lækinn að nota þetta sem árásarefni á mig vegna þess að ég vakti athygli á því að blekkingaraðgerðir væru hér í gangi, þegar rétt fyrir kosningar er tekin ákvörðun um það með þessu frumvarpi að fjölga listamönnum á launum með því að taka lán. Ég hef aldrei lýst mig mótfallinn því að þessar lagabreytingar væru gerðar. Ég (Forseti hringir.) hef gagnrýnt það því fjármagn er ekki tryggt (Forseti hringir.) til þessara aðgerða.