136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:52]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ræða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar kom mér mikið á óvart vegna þess að það var hvorki mikil sannfæring í ræðunni né heldur var hún sanngjörn miðað við þær aðstæður sem við höfum búið við í þinginu að undanförnu. Mér finnst ekki mikill bragur yfir því að hv. þingmaður, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, gangi fram með þeim stóryrðum gagnvart fyrrverandi samstarfsflokki, Sjálfstæðisflokknum, eins og hann hafði hér í frammi. Ég vil minna aðeins á að eftir kosningarnar 2007 rifust Samfylkingin og Vinstri grænir um að komast í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það er nauðsynlegt að rifja það upp hér. Og hvers vegna var það? Vegna þess að mat þeirra var að staða okkar Íslendinga, uppbygging hins íslenska samfélags á undanförnum árum, væri með þeim hætti að eftirsóknarvert væri að komast í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn við stjórn landsins.

Þess vegna er mjög holur hljómur í ræðum á borð við þá sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti áðan. Og að tala um málþóf þegar flokkurinn hefur forsætisráðherra við stjórn landsins sem talaði í 10 klukkustundir er mikið öfugmæli, hvað þá að vinstri grænir tali um málþóf. Sjálfstæðismenn hafa staðið hér í málefnalegri umræðu, flutt stuttar ræður, við höfum ekki flutt ræður klukkutímum saman eins og hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar gerðu á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Ég hvet hv. þingmenn til að sýna sanngirni og ljúka þinginu að þessu sinni með meiri reisn (Forseti hringir.) en ræður hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar hafa bent til.