137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[13:46]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan er lögð fram af öllum þingmönnum í þingflokkum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Meginefni tillögunnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Nefndinni er falið eftirfarandi hlutverk:

1. Að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

2. Að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings.

Nefndin ljúki framangreindum verkefnum sem allra fyrst og eigi síðar en 31. ágúst 2009.“

Þessi tillaga er lögð fram í beinu framhaldi af þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu og ber að skoða hana í því ljósi. Hún er sem sagt viðbrögð við þeirri tillögu sem upprunnin er hjá utanríkisráðherra og til þess ætluð að reyna að ná sem víðtækastri sátt í þessu máli, sátt um að taka næsta skref og það skref feli í sér áframhaldandi umræðu og að menn geri sér grein fyrir þeim hagsmunum sem í þessu máli liggja en séu þá jafnframt undirbúnir hver svo sem niðurstaðan verður. Það er rétt að hnykkja á því, sérstaklega í ljósi umræðu sem hefur farið fram um tillögu ríkisstjórnarinnar bæði í þinginu og í fjölmiðlum, að með þessari tillögu erum við ekki að taka ákvörðun um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Við erum að undirbúa þá ákvörðun, gera okkur betur kleift að taka ákvörðunina, í rauninni að móta forsendurnar sem eru nauðsynlegar til að þingið geti tekið upplýsta ákvörðun þar um. Svo kann menn að greina á um það hversu mikið vanti upp á að við höfum allar forsendur til þess en í svona stórri ákvörðun hljóta menn þó að geta náð saman um það að fara þurfi fram einhver grundvallarundirbúningsvinna í þinginu áður en ákvörðunin er tekin. Um það hefur umræðan að miklu leyti snúist varðandi tillögu ríkisstjórnarinnar hvort hægt væri að taka ákvörðunina fyrst og ræða síðan ástæðurnar sem er að mínu mati og þeirra sem flytja þá tillögu sem ég mæli fyrir öfug röð, að ætla fyrst að taka ákvörðun um einhvern hlut og reyna síðan að ræða málið til að átta sig á því hvers vegna maður tók ákvörðunina. Með tillögu okkar viljum við snúa þessari röð við og koma á eðlilegri röð við ákvarðanatöku en jafnframt að þessi vinna verði öll mun faglegri en við teljum að tillaga ríkisstjórnarinnar feli í sér.

Það góða við þessa tillögu, eitt af mörgu góðu reyndar, er það að bæði þeir sem eru fyrir fram hlynntir aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hinir sem hafa um það miklar efasemdir eiga að geta sæst á þessa niðurstöðu, því að eins og ég nefndi er þetta ekki spurning um að taka ákvörðun af eða á heldur að málið fái að fara í gegnum eðlilega umræðu. Nú þegar líklega meira en nokkru sinni fyrr í íslenskum stjórnmálum hefur verið hamrað á mikilvægi þess að fram fari upplýst umræða og umfram allt sé haft samráð um hlutina og ákvarðanir teknar í sameiningu hljótum við í svona stóru máli, hugsanlega einhverju stærsta máli sem Alþingi Íslendinga hefur nokkru sinni tekið ákvörðun um, að vera sammála um að þar eigi samráðið að gilda og samráðið eigi að eiga sér stað áður en ákvörðunin er tekin.

Ríkisstjórnin verður að fyrirgefa okkur það ef við höfum dálitlar efasemdir um málflutning hennar þess efnis að það sé óhætt að taka ákvörðunina fyrst og eiga samráðið síðan, þó ekki væri nema í ljósi þess að þrátt fyrir að ekkert hafi vantað upp á mörg orð hjá núverandi ríkisstjórn um mikilvægi samráðs og samvinnu hafa efndirnar því miður ekki verið eftir því. Stjórnarandstaðan hefur ekki fengið að finna fyrir þeim nýju vinnubrögðum sem svo mjög er talað fyrir, vinnubrögðum samráðs og samvinnu. Við sjáum það bara í þeim gríðarlega stóra og erfiða málaflokki sem úrlausn efnahagsvandans er, þingið hefur til að mynda ekki enn fengið að heyra þá stöðu efnahagsmála sem kynnt var fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í Þjóðminjasafninu fyrir nokkrum dögum. Enn bíða þingflokkarnir eftir að fjármálaráðherra geri þeim grein fyrir þessu mikilvæga máli og raunar á það sama við um flest önnur stór mál. Þrátt fyrir öll orðin um samstöðu og samvinnu hefur þetta ekki birst í raun. Þar af leiðandi er ekki nema eðlilegt að þrátt fyrir öll fögru fyrirheitin í Evrópumálunum, um að þegar búið verði að senda umsókn verði farið út í samráð, hafi menn dálitlar efasemdir um að við það verði staðið að fullu. Og þar af leiðandi, og raunar ætti ekki að þurfa þessa reynslu til, leggjum við til að málið fái þessa faglegu meðferð eins og eðlilegt væri að miklu, miklu minni mál en þetta fengju.

Menn hafa brugðist við þessari tillögu á ólíkan hátt í þinginu. Að langmestu leyti hafa fulltrúar stjórnarflokkanna tekið tiltölulega vel í þessa tillögu og það er mikið fagnaðarefni. Sérstaklega vil ég nefna að hæstv. utanríkisráðherra hefur fjallað vel um tillöguna og raunar haft tiltölulega lítið út á hana að setja. Og í ljósi þess að hún felur í sér mikla sáttargjörð, tilraun til þess að ná sátt, víðtækri sátt um þetta mál, teldi ég eðlilegast að við ræddum málið fyrst og fremst út frá þessari tillögu en það liggur þó fyrir núna að þær verða alla vega ræddar saman og það tel ég að sé vel.

Hins vegar hafa ekki allir slegið þennan sama tón og hæstv. utanríkisráðherra og ég tek fram, ég ítreka það, að ég er ánægður með viðbrögð utanríkisráðherra að því leyti, og margra annarra stjórnarliða, að hann heldur þó alla vega áfram að tala um mikilvægi samvinnunnar í þessu máli. Það á svo eftir að koma í ljós hvort staðið verður við það, hvort þessi tillaga verður rædd í fullri alvöru. Ég treysti á að sú verði raunin en það á eftir að koma í ljós. Alla vega er ég ánægður með að hæstv. ráðherra skuli tala á þessum nótum. Það hefur hins vegar gleymst, virðist vera, að setja hæstv. félagsmálaráðherra inn í þá taktík sem til stóð að spila í þessu máli, því að hann fór af stað hér í gær og fer mikinn enn um að þetta tefji mál og fann þessu allt til foráttu hjá stjórnarandstöðunni. Það eru dálítið leiðinleg viðbrögð verð ég að segja og einn eða tveir af þingmönnum Samfylkingarinnar hafa ákveðið að fara þessa sömu braut og ber ekki mikinn vott um þann mikla samstarfsvilja sem menn tala svo mikið fyrir, því að auðvitað er algjörlega fráleitt að tala um þetta sem töf í þessu stóra máli. Hér erum við að koma mjög til móts við þá sem liggur hvað mest á við afgreiðslu þessa máls með því að taka fram að þessu skuli lokið fyrir 31. ágúst á þessu ári. Jafnvel þó að það væri 31. ágúst á næsta ári held ég að það væri ekkert sérstaklega rúmur tími fyrir svona stórt mál en við ætlum að reyna að vinna þetta hratt til að óþreyjufullir menn sem fyrir löngu eru búnir að gera upp hug sinn, eins og hæstv. félagsmálaráðherra, geti andað rólega. Það veitir ekkert af því að halda aðeins í við menn í þessu efni því að það virðist vera að menn hafi ekki einu sinni verið tilbúnir til að gefa þinginu almennilegan tíma til þess að ræða þetta mál. Svo mikið lá þeim á að koma því áfram að hér gekk maður undir manns hönd við að reyna að fá stjórnarliða til að hætta við að ræða tillögu stjórnarinnar, fella sig út af mælendaskrá og nokkrir virðast hafa gert það, en fyrir vikið komst reyndar tillaga stjórnarandstöðunnar á dagskrá þeim mun fyrr og það er svo sem ágætt.

Ég vona að hér fari fram málefnaleg umræða um þessa tillögu því að nú reynir á hjá stjórninni sem talað hefur svo mikið fyrir samráði og samvinnu og — höfum það sérstaklega í huga — talað fyrir því að hver eigi að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni. Nú reynir á hvernig viðbrögðin verða við tillögu stjórnarandstöðunnar, hvort menn muni í framhaldinu reyna að svæfa hana, ýta henni út af borðinu, eða hvort þeir ræði hana af fullri alvöru og verði tilbúnir til þess, ef hún fellur þeim ágætlega, að styðja tillöguna. Tillagan er öll þess efnis að hún ætti að falla að skoðunum flestra, líklega allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Hún snýst um fagleg vinnubrögð, að málið sé unnið vel í þinginu áður en ákvörðunin er tekin. Ég vona því að þeir sem tala á eftir og svo í umræðum um þessi mál í framhaldinu líti á þetta eins og þetta raunverulega er, tilraun til að vinna málið vel og í sátt og tjá sig í samræmi við það.