137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því svari sem var gefið vegna þess að þegar um er að ræða samninga um framsal á fullveldi, eins og óumflýjanlega væri um að ræða í samningi við Evrópusambandið, gilda um það ákveðnar reglur hér á þinginu. Það getur aldrei komið til þess að utanríkisráðherra skrifi undir og fullgeri slíkan samning án þess að hann verði síðan í framhaldinu borinn undir þingið. Í því máli sem við ræðum hér er sá vandi uppi að ekki eru að stjórnskipunarrétti heimildir fyrir þingið til þess að staðfesta slíkan samning.

Við hljótum því að vera sammála um það í það minnsta, ég og hæstv. utanríkisráðherra, að samningur gerður við Evrópusambandið verður aldrei borinn undir þetta þing til staðfestingar. Erum við ekki örugglega sammála um það?