137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:57]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. og formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, bað um skýringar og leiðréttingar ef einhverjar væru. Ég ætla að reyna að leiðrétta þann misskilning sem enn virðist vera til staðar og stafar líklega af því að menn eru svolítið fastir í því að þetta séu í raun sams konar tillögur þegar á þeim er þessi grundvallarmunur, reyndar er nú ýmis munur á þeim, en eitt af grundvallaratriðunum er að tillaga stjórnarandstöðunnar snýst um að undirbúa ákvarðanatökuna. Tillaga stjórnarinnar er tillaga um að taka þessa sömu ákvörðun.

Ég skal nefna dæmi af því að þetta er líklegast einhver stærsta ákvörðun sem Alþingi mun nokkurn tíma taka, ein af þeim a.m.k., og er gríðarlegt hagsmunamál. Ef við skoðum þetta út frá einni fjölskyldu, þá er það oftast ein stærsta ákvörðun fjölskyldu, a.m.k. ein stærsta fjárfesting, að kaupa sér húsnæði. Þá má segja að tillaga stjórnarinnar sé um það að einhver fjölskylda ætli að taka ákvörðun um að kaupa eitt tiltekið hús og gerir tilboð í það á ákveðnu verði. Tillaga stjórnarandstöðunnar beinist hins vegar að því að þessi sama fjölskylda ætlar skoða hvaða fasteignir eru til, hvaða peninga hún á fyrir húsnæði, hvaða greiðsluaðferðir mundu henta henni, hvaða kröfur þarf að gera til húsnæðis o.s.frv. Þetta er sem sagt spurning um það að menn fari í gegnum þá eðlilegu vinnu sem er nauðsynleg til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun.