137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að ekki þurfi að deila um a.m.k. eitt í þessari umræðu og það er að hluti íslenskra heimila glímir við mikinn vanda. Sérstaklega tilfinnanlegur er hann auðvitað hjá því fólki sem hefur orðið fyrir tekjufalli, misst atvinnuna og situr uppi með skuldir og ekki bætir úr skák þegar þær hafa hækkað í verðbólguskoti eða vegna veikingar gengis krónunnar. Ég held að það ætti ekki heldur að þurfa að deila um það að menn vilja gjarnan grípa til þeirra aðgerða sem þjóðarbúið ræður við og skynsamlegar, skilvirkar og hnitmiðaðar eru til að aðstoða fólk í þessum erfiðleikum. Spurningin er: Hverjar eru þær og hvaða bolmagn og hvaða getu hefur íslenskt þjóðarbú eins og það er á sig komið eftir efnahags- og bankahrun?

Það er ákaflega falleg hugsun að hægt sé að leiðrétta þetta í heild sinni almennt eins og einhverja skekkju, eins og einhverja stafsetningarvillu. Sérstaklega er hún falleg ef menn telja að það sé hægt án þess að það kosti nokkurn skapaðan hlut, það sé bara hægt að fara með „tipp-ex“ á þetta og mála yfir þetta og skrifa upp á nýtt. Ég fæ ekki séð að hún gangi upp, ég fæ ekki botn í hana, því miður. Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki haft vilja til að skoða hana, það er ekki vegna þess að ég skilji ekki alveg nálgunina, að það megi færa almenn og ýmis sanngirnisrök fyrir því að það sé ósanngjarnt að fólk sitji almennt uppi með áfall af því tagi sem þessar aðstæður í okkar þjóðarbúskap hafa skapað, en það hlýtur að ráðast af eðli máls og aðstæðum hvað er hægt að gera.

Ég fæ t.d. aldrei séð að það geti verið án útláta fyrir ríkissjóð að færa niður allt eignasafn Íbúðalánasjóðs svo nemi kannski 120 milljörðum kr. Hvaðan eiga fjármunirnir að koma í staðinn til að halda Íbúðalánasjóði starfhæfum og eigin fé hans yfir lágmörkum? Ég fæ ekki annað séð en að það verði áfall fyrir lífeyrissjóðina ef þeir þurfa að færa niður 160–170 milljarða lánasafn sitt til sjóðfélaga sem að uppistöðu til eru fasteignaveðlán og þar færu þá einhverjir 35 milljarðar af eignum þeirra. Ég held að það sé því miður heldur ekki þannig að í þremur nýjum veikburða bönkum í eigu ríkisins séu einhverjir faldir sjóðir til að mæta 20% niðurfærslu allra lána til heimila og fyrirtækja. Ég vildi óska þess að það væru einhverjir slíkir faldir sjóðir í nýju bönkunum. Áhyggjur mínar eru af hinu gagnstæða, að þeir muni reynast á veikari forsendum byggðir vegna aukinna erfiðleika í íslensku efnahags- og atvinnulífi en menn vonuðust til þegar stofnað var til þeirra á síðastliðnu hausti.

Við skulum ekki gleyma öðrum aðilum sem hafa lánað heimilum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum, ekki hafa þeir fengið neina niðurskrift í færslum milli gamalla og nýrra banka. Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðirnir, önnur fjármálafyrirtæki hafa sannarlega ekki fengið það. Að því marki sem kynni að vera eitthvert borð fyrir báru vegna þess að afskriftir hefðu verið svo ríflegar þegar lán færðust úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju að það væri umfram raunvirði þeirra lánasafna mundu menn að sjálfsögðu vefengja það uppgjör. Hvernig gengi að ná samningum, ég tala nú ekki um með opna umræðu um að þarna hafi í raun og veru verið vitlaust gefið og nýju bankarnir hafi fengið gratís í heimanmund alveg stórkostlega gilda sjóði og eigi bara fyrir því að afskrifa lánin? Halda menn að viðsemjendur okkar, erlendir kröfuhafar, væru svo loppnir að þeir mundu ekki taka til varna? Ég hef ekki hitt þá erlendu kröfuhafa enn þá sem eru tilbúnir til að tapa meiru á Íslandi en þeir þurfa. Þeim finnst ærið nóg að tapa á Íslandi kannski 6 þúsund milljörðum króna. Gjaldþrot Kaupþings er með stærri gjaldþrotum í sögunni þannig að jafnvel hjá stórum þýskum, austurrískum, japönskum bönkum telur þetta. Þeir væru ekki hér með tugi manna á launum við að gæta hagsmuna sinna í svartasta skammdeginu ef það væri ekki vegna þess að þarna er mikilla hagsmuna að gæta.

Horfum aðeins á hina hliðina. Ef við verðum sammála um að við höfum takmarkaða fjármuni handa á milli og það sé mikilvægt að nýta getu þjóðarbúsins og máttarstoða þess, sem eru sannarlega m.a. Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir, með skilvirkum hætti, hvar er þörfin? Hún er augljóslega hjá þeim 10–15% íslenskra heimila sem eru í langmestum vanda. Hvernig er staðan t.d. í Íbúðalánasjóði eða hjá þeim hluta heimilanna sem að mestu leyti hefur fasteignaveðlán sín í Íbúðalánasjóði? Hún er þannig að stærstur hluti þeirra heimila skuldar óverulega annars staðar og er ekki í vandræðum með greiðslubyrði sinna lána. Hvað eru þau mörg, ætli það séu ekki um 75% heimila með fasteignaveðlán sem verja þrátt fyrir allt enn þá innan við 30% af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslu af þeim? Á hina hliðina eru kannski 10–12% heimila sem verja yfir 50% af ráðstöfunartekjum í greiðslu fasteignaveðlána. Þar liggur vandinn, þar þarf umtalsverða aðstoð. Augljóslega er úr þeim hópi stærstur hluti kandídatanna í greiðsluaðlögunarúrræðin sem eru ætluð þeim sem eru í mestum erfiðleikum að þessu leyti og þar í er fólgin afskrift í enda tímans ef annað dugar ekki til.

Við getum líka tekið dæmi frá hinni hliðinni. Segjum að hjón í Reykjavík, annað þeirra gæti verið starfsfélagi okkar á þinginu, eigi 40 millj. kr. einbýlishús, það standi fyrir því í dag, eða íbúð og þau skuldi 15 millj. kr. Flöt niðurfelling, sem þau eru ekki í nokkrum vandræðum með að borga, upp á 20% færir þeim 3 milljónir í viðbót. Er það skilvirk og skynsamleg ráðstöfun fjármuna? Er ekki meiri þörf fyrir þá aðstoð einmitt hjá hinum sem ekki ráða við hlutina nema með umtalsverðri og miklu meiri aðstoð?

Þegar kemur að fyrirtækjunum er það líka að mínu mati mjög vandasöm hugsun að ætla að nálgast vandann þar þannig að taka allt skuldasafnið og færa það niður flatt og glíma svo við afganginn. Hvernig gerist það þegar banki tekur til við skuldaúrvinnslu hjá fyrirtæki? Það er venjan ef fyrirtæki þarf á aðstoð að halda að byrjað er á því að færa niður hlutafé þess eða strika það út og eigendurnir sem settu fé inn í fyrirtækið tapa öllu sínu fyrst. Síðan er það gjarnan reynt á móti niðurfellingu einhverra skulda, þ.e. ef ekki er bara farin yfirtökuleið og gjaldþrotaleið, að fá nýtt fé inn í fyrirtækið og jafnvel sett í eitthvert hlutfall við niðurfærslu skuldanna sem á sér stað á móti. Þannig er reynt að koma lífvænlegu fyrirtæki á nýjan leik út í lífið með endurvinnslu eða úrvinnslu á vandamálum þess og það er skoðað fyrirtæki fyrir fyrirtæki. Ég hef aldrei heyrt um það að menn færu almennt í sambærilegri stöðu í einhverjar flatar aðgerðir þegar kemur að fyrirtækjum, það má miklu frekar rökstyðja slíkt gagnvart heimilum. En gagnvart fyrirtækjum þar sem aðstæðurnar eru gríðarlega ólíkar og misjafnar þá held ég að seint verði sótt rök til að mæla með því að það sé sérstaklega skilvirk aðgerð.

Að lokum, frú forseti, er það alltaf veruleikinn sem ræður. Menn geta fantaserað um ýmislegt en mín langa reynsla af glímu við svona hluti er sú að að lokum er það yfirleitt veruleikinn sem tekur völdin, hann er sá húsbóndi sem að lokum ræður mestu vegna þess að aðstæður manna takmarkast alltaf af honum. Við getum haft okkar óskir og drauma og vonir um ýmislegt en ef þær rekast algjörlega á við veruleikann, á aðstæður okkar, raunheiminn, hlutina eins og þeir eru, liggur valdið alltaf á sínum stað. Það verður geta íslenska þjóðarbúsins til að glíma við þessa erfiðleika almennt sem mun ráða því hvernig okkur reiðir af hverju fyrir sig og öllum sameiginlega. Þar er getan því miður verulega skert og ekki þarf annað en að horfa smástund á kennitölur úr ríkisfjármálunum til að sjá það.

Þess vegna hafa menn verið að reyna að leita leiða til að aðstoða þá sem væru í mestri þörfinni fyrir aðstoð á skilvirkan hátt, með greiðslujöfnun, með frystingu eins og Íbúðalánasjóður býður upp á vegna óvæntra áfalla eða tekjufalls og með greiðsluaðlögunarferlinu, með stórhækkun vaxtabóta og með fleiri slíkum ráðum.

Tillögur af þessu tagi hafa oft verið skoðaðar. Nefnd í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með að ég held aðilum vinnumarkaðarins skoðaði þessar almennu leiðir og féll frá þeim. Seðlabankinn hefur skoðað bæði hugmyndir talsmanns neytenda og tjáð sig um þessa tillögu fyrr í vetur. Fagfólk í bönkunum hefur skoðað þetta, sérfræðingar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa skoðað þetta, Íbúðalánasjóður hefur skoðað þetta og tjáð sig um þetta. Enginn af fyrrnefndum aðilum hefur séð þetta sem vænlega eða jafnvel yfir höfuð færa leið. Það er af einhverjum ástæðum, held ég, sem flutningsmönnum þessarar tillögu hefur gengið erfiðlega (Forseti hringir.) að sýna fram á að hún væri raunhæf, hún væri fær, hún væri skilvirk eða skynsamleg. Og ég verð bara að játa mig enn þá (Forseti hringir.) í þeim hópi að hafa ekki séð ljósið í þessum efnum gagnvart þessari tillögu.