137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram um afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja. Umræðan hefur í raun verið mjög góð í dag, efnismikil umræða um stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Við erum loksins farin að ræða einhverjar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum, einhverjar raunverulegar aðgerðir. En því miður blasir það við okkur að sú tillaga sem við ræðum kemur frá stjórnarandstöðunni. Engar hugmyndir virðast vera á borði ríkisstjórnarinnar í þeim efnum að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki. Ég las í Morgunblaðinu í morgun að nú er áhugi á því að lífeyrissjóðir spili stórt hlutverk í endurreisn íslensks efnahagslífs. Þetta er efnislega samhljóða þeirri tillögu sem við framsóknarmenn lögðum fram og er fræg sem ein af 18 tillögum í efnahagsmálum sem Framsóknarflokkurinn lagði fram í febrúar sl. Nú er júní og ríkisstjórnin er að átta sig á því að vit gæti verið í því að ræða við lífeyrissjóðina um að koma með hluta af eignum sínum hingað til lands til að spýta inn í íslenskt efnahagslíf, fjölga þannig störfum, auka verðmætasköpun í samfélaginu og minnka þar af leiðandi atvinnuleysið. En það tók ríkisstjórnina nokkra mánuði að átta sig á því á tímum þar sem ástandið hefur verið að versna dag frá degi.

Hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra, virðast því miður misskilja þetta mál í grundvallaratriðum og tala sí- og endurtekið um það að kostnaðurinn vegna þessara aðgerða sem við mælum fyrir muni á endanum bitna á ríkissjóði. Það er grundvallarmisskilningur. Það er búið að ræða það fram og til baka í umræðunni í dag og ég held að ómögulegt verði, því miður, að telja hæstv. ráðherrum trú um að þetta sé raunhæf leið. En þá veltir maður því fyrir sér hvaðan þessir hæstv. ráðherrar sæki umboð sitt. Þeir sitja hér í umboði stjórnmálaflokka sinna sem hafa ályktað mjög einarðlega um hvernig á að koma til móts við stöðu heimilanna og fyrirtækjanna. Mig langar, frú forseti, að vitna til ályktana Samfylkingarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samfylkingin vill að leitað verði sanngjarnra leiða til að skipta ófyrirséðu tjóni milli lántakenda og lánveitenda vegna efnahagshrunsins og hækkunar verðtryggðra lána því samfara.“

Ég vil í þessu samhengi benda á að á undangengnum 20 mánuðum hafa lán heimilanna hækkað um 20% vegna þess að viðsemjendur þeirra, stóru bankarnir, tóku stöðu gegn íslensku krónunni, gjaldmiðlinum okkar, sem leiddi til þess að verðbólgan rauk upp úr öllu valdi. Mjög venjulegt og eðlilegt fólk gerði plön sín fyrir framan viðskiptafulltrúa sinn í einum af stóru bönkunum um greiðsluáætlun þar sem gert var ráð fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans væri hluti af forsendum þeirra viðskipta, en um leið og sú fjölskylda gekk út frá þjónustufulltrúanum tóku yfirstjórnendur þess banka stöðu á móti krónunni sem leiddi til þess að lán viðkomandi fjölskyldu hækkaði mikið.

Hæstv. ráðherra lýsti því áðan að mjög varhugavert væri í samfélaginu, þó að sumar fjölskyldur hefðu greiðslugetu, að greiðsluviljann vantaði. Ég spyr: Er það eitthvað undarlegt miðað við hvaða forsögu mála þegar við horfum á það að venjulegt fólk sem gerði áætlanir sínar í samráði við viðskiptabanka sinn skuli horfa upp á það í dag að viðkomandi banki hafi í rauninni gengið á bak orða sinna um leið og viðkomandi fór út með því að stuðla að því að verðbólgan stórhækkaði með veikingu krónunnar? Því er eðlilegt að réttlát reiði sé í samfélaginu.

Ég sé að hv. þm. Lilja Mósesdóttir er í salnum, sem ég vil þakka fyrir mjög skeleggan málflutning þegar kemur að skuldum heimilanna, enda talar hv. þingmaður í samræmi við ályktanir flokks síns og fylgir trúlega sannfæringu sinni um að skoða eigi einhverja leið til að leiðrétta lán íslenskra skuldugra heimila sem mörg hver sjá ekki fram úr skuldum sínum. Ég vil því spyrja hv. þingmann sem stakk upp á því í gær hvort hún hafi á vettvangi þingflokks síns komið fram með þá hugmynd að við myndum þverpólitíska nefnd sem kæmi að því að skoða hvernig við komum til móts við vanda skuldugra heimila og fyrirtækja, gera a.m.k. tilraun til þess að menn geti skoðað málið og sammælist um einhverja aðgerð. Ég held að þeim tíma sem við verjum á sumarþingi væri ágætlega varið til að fara yfir það hvernig við getum komið til móts við skuldug heimili. Hæstv. fjármálaráðherra tók undir það áðan að rétt væri að ráðast í slíka vinnu. Það hlýtur því að vera formsatriði að flokkarnir sem eiga sæti á Alþingi tilnefni sérfræðinga á sínum vegum í starfshóp til að fara heildstætt yfir þessi mál, því að eins og hv. þingmaður hefur sagt hefur hún lagt fram hugmyndir að öðrum aðgerðum til að koma til móts við heimilin þ.e. annars konar afskriftir. Við hljótum að geta talað okkur niður á einhverja sameiginlega leið í þeim efnum.

Frú forseti. Sú umræða sem við höfum háð hér í dag endurspeglar það að ég tel að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn meti stöðu heimilanna ekki eins alvarlega og hún er í raun og vil ég vitna til ræðu hæstv. félagsmálaráðherra áðan. Það stefnir í að öllu óbreyttu að 28.500 íslensk heimili verði komin með neikvæða eigin stöðu eða eigið fé undir næstu áramót.

Árið 2010 er spáð áframhaldandi kaupmáttarrýrnun hér á landi þannig að staða fjölskyldnanna mun ekki batna á því ári. Því veltir maður fyrir sér hver staða íslenskra heimila verði þá orðin um mitt ár 2010. Er það þannig, eins og mér finnst að ríkisstjórnin vilji, að við ætlum að láta þetta lulla svona áfram, sjá bara hvað gerist, láta kylfu ráða kasti, að eitthvað detti vonandi ofan af himninum sem muni hjálpa íslenskum heimilum? Eða ætlum við að ráðast í einhverjar raunverulegar aðgerðir til að koma til móts við þennan yfirgengilega vanda sem blasir við okkur? Eðlilegt er að spurt sé.

Það er mikið óþol í samfélaginu gagnvart því aðgerðaleysi sem við höfum þurft að horfa upp á. Hv. þm. Magnús Orri Schram kom hér upp áðan og velti fram þeirri hugmynd hvort verið gæti að það væri Framsóknarflokknum að kenna í ljósi þess að hann hefur lagt fram sínar hugmyndir um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja, hvort það væri að tefja framvindu efnahagsmála hér á landi að ekki kæmu fram raunhæfar hugmyndir í efnahagsmálum. Mér fannst nokkuð langt seilst hjá hv. þingmanni því það sem við höfum verið að kalla eftir á vettvangi þingsins eru einmitt skoðanaskipti og hugmyndir frá stjórnarliðum um hvort við gætum gripið til einhverra ráða.

Borgarahreyfingin hefur talað um flatan niðurskurð á skuldum heimilanna eða leiðréttingu á verðbólgu síðustu mánaða, við höfum horft upp á sérfræðinga í Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki tala á sama veg, og við framsóknarmenn tölum mjög einarðlega fyrir þessu en það virðist bara vera einn flokkur sem er alveg ákveðinn í því að ekki eigi að koma með fyrirbyggjandi hætti í veg fyrir að tugþúsundir íslenskra heimila lendi í verulegum vandræðum verði ekkert að gert, og það er Samfylkingin. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, var fljót að slá þessa hugmynd út af borðinu eins og hæstv. ráðherra, Árni Páll Árnason. Er það þannig að flokkur með rétt innan við 30% fylgi eigi að ráða förinni í máli sem þessu þegar fulltrúar flokka sem telja um 70% íslensku þjóðarinnar, sem 70% íslensku þjóðarinnar eru á bak við, geta ekki einu sinni sest niður saman þvert á flokka og rætt þessi mál?

Ég vil spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, sem er því miður að fara í forsetastól, því verður erfitt fyrir hv. þingmann að svara mér, en mér leikur forvitni á að vita hvort menn séu í raun ekki tilbúnir til að setjast niður og ræða þær hugmyndir sem hafa komið fram. Við megum ekki festast í einhverjum skotgröfum í þessu máli. Það er grafalvarleg staða sem blasir við heimilunum og fyrirtækjunum og eins og ég hef sagt áður, við framsóknarmenn lögðum þessar hugmyndir fram í febrúarmánuði. Þær áttu ekki að verða eitthvert kosningamál og nú í dag er að koma í ljós að það hefði verið betra ef við hefðum gripið til fyrirbyggjandi aðgerða strax í febrúarmánuði til að koma til móts við stöðu heimilanna og fyrirtækjanna frekar en fljóta sofandi að feigðarósi og horfa upp á þá stöðu sem uppi er í samfélaginu í dag, gríðarlegt atvinnuleysi og mikil skuldsetning heimila og fyrirtækja. Í rauninni er alveg óljóst hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera í efnahagsmálum og gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum, því miður, og þó er hún búin að vera yfir 100 daga að störfum.