137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

virðisaukaskattur.

47. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir litlu máli frá efnahags- og skattanefnd sem hún tók í arf frá efnahags- og skattanefnd fyrra þings, þ.e. þingsins sem var fyrir kosningar, en þá var gengið í lagabreytingar sem lutu að því að örva hér umsvif í viðhaldi með því að auka endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna framkvæmda ýmiss konar í 100%. Með þessu máli er verið að taka inn í endurgreiðslu vegna vinnu tiltekinna fagstétta sem þar urðu út undan, sem eru landslagsarkitektar, innanhússarkitektar og byggingarfræðingar, þannig að virðisaukaskattur vegna þeirra starfa verði einnig endurgreiðsluhæfur og verði því hvetjandi til þess að fólk ráðist í verkefni af þessu tagi til að auka á umsvifin í samfélaginu.

Nefndin flytur málið sem heild og óþarft er að málið gangi til nefndar milli umræðna en nefndin leggur til að það verði að loknum umræðum samþykkt. Málið má finna á þskj. 47.