137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einfaldlega að það þurfi að vera til staðar, eins og ég rakti í löngu máli áðan, einhver samstaða um grundvallaratriði áður en lagt er af stað, um þá hagsmuni sem menn eru sammála um að reyna að verja, um það hvernig menn ætla formlega að ganga frá málinu bæði umbúðum þess þegar lagt er af stað og hvernig málinu á síðan að ljúka samkvæmt stjórnarskrá og lögum.

Það þarf að vera til staðar einhver lágmarks sameiginleg sýn á milli þeirra sem eiga að standa að viðræðuferlinu til þess að ég gæti treyst mér að styðja það að slík umsókn yrði lögð fram. Ég taldi í vetur að það væru jafnvel uppi og að skapast aðstæður á Íslandi til að slík breið pólitísk samstaða gæti náðst en þegar til stykkisins kemur sér maður að áhugi manna á að ganga inn í samstarf við Evrópusambandið er svo mismikill að (Forseti hringir.) það tekst ekki nein samstaða um að verja ákveðna grundvallarhagsmuni sem fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna hafa valdið því að við höfum talið hagsmunum okkar betur borgið utan sambandsins.