137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vakti sérstaklega máls á því í framsöguræðu minni að þetta væri einmitt eitt af því sem við þyrftum að ræða sérstaklega þegar kæmi að því að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, það væri ekki bara samningur og efnisinnihald hans heldur líka hugsjónirnar sem hv. þm. Bjarni Benediktsson vék hér að. Margir eiga sér þá hugsjón að Ísland eigi að vera hluti af þessu samstarfi Evrópuríkja á vettvangi Evrópusambandsins. Aðrir eiga sér hugsjónina um ævarandi sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar sem ekki megi skerða með nokkrum hætti og það eru málefnaleg — kannski tilfinningaleg — en málefnaleg rök sem munu eiga erindi í umræðuna þegar þar að kemur.