137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega staðreynd að stjórnskipanin gerir ráð fyrir því að utanríkisráðherra leiði þetta samningaferli. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni og þeim sem hér hafa talað í dag að það er nauðsynlegt að ná breiðri samstöðu líka meðal stjórnmálaflokkanna. Þess vegna tel ég, þó að það sé utanríkisráðherra sem formlega skipar samninganefndina, að nefndin eigi að endurspegla vilja okkar sem að þessu máli standa til þess að það endurspeglist líka hjá þeim sem hafa með höndum pólitísk völd í samfélaginu í gegnum sínar hreyfingar.

Í annan stað vildi ég segja, frú forseti, að ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um það hvernig ber að skilja ályktun Framsóknarflokksins. Það er satt að þar koma fram skilyrði en síðan segir: „Þessi helstu samningsmarkmið sem og önnur verði lögð til grundvallar.“ Ekki að þau séu ófrávíkjanleg heldur eru þau lögð fram sem grundvöllur samningaviðræðna, það skiptir ákaflega miklu máli. Það er það sem segir orðrétt í ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið sem var samþykkt á flokksþingi hjá hv. þingmanni.