137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Hann er alltaf jafnskemmtilega málefnalegur þessi hv. þingmaður, Róbert Marshall. Er það ekki afstaða þessarar ríkisstjórnar að þingmenn eigi eingöngu að fylgja sannfæringu sinni í þessu máli? Mér þykja þetta tíðindi að hv. þingmanni þyki óviðeigandi að ekki séu allir þingmenn sama flokks á sama máli. Þetta er afar áhugavert.

Svo las hv. þingmaður upp einhverja tilvitnun í mig um að það ætti að vera á stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég var að ítreka að það er stefna flokksins að sækja um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum. Ég fór mjög ítarlega yfir þetta í ræðunni. Það er því eins og svo oft þegar þessi hv. þingmaður kemur í ræðustól að það er ekki svo gott að eiga málefnalega rökræðu við hann.