137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er afar fljótlegt að svara fyrstu spurningunni. Ég hef tilheyrt og tilheyri enn þeim sem telja það ekki hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið þannig að þannig standa málin og ég er því andvígur.

Í öðru lagi tel ég að tímabundnar undanþágur þegar komi að mikilvægustu grundvallarhagsmunum okkar séu ekki nóg, ég tala nú ekki um ef þær yrðu jafntímabundnar og til dæmis var niðurstaðan í tilviki Noregs. Ég tel að við yrðum að fá varanlega viðurkenningu á einhverju sérstöku fyrirkomulagi, sérstöku svæði hvað varðar fiskveiðilögsöguna og forræðið þar. En er það þó þannig að af tvennu tel ég enn mikilvægara að Ísland nái að halda sjálfstæðum samningsrétti og geti sjálft gætt sinna hagsmuna og samið um sína hlutdeild, til dæmis í deilistofnum og öðru slíku. Það tel ég að sé eitt einstakt mikilvægasta hagsmunamál okkar gagnvart sjávarútveginum.

Í þriðja lagi varðandi misjafna reynslu af samskiptum við Evrópuþjóðir: Já, það má ýmislegt um það segja. En Evrópa er nú þarna og verður áfram og ekki ætlum við að segja okkur úr samfélagi þjóðanna. Við ætlum að eiga við þær viðskipti og þurfum að búa einhvern veginn um það þannig að það er það sem við erum að ræða.