137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í þeirri miklu umræðu sem hefur átt sér stað undanfarin ár um Evrópumálin og tengsl Íslands við Evrópusambandið hafa orðið til alls konar hugtök sem hafa gengið eins og rauður þráður í gegnum umræðuna, tekið breytingum í áranna rás eins og gengur en nokkur hafa fest sig í sessi, t.d. hugtökin samningsmarkmið, samningsumboð og vegvísir, öll gætu þau mögulega átt við þá tillögu sem við erum að ræða. Í dag var í raun og veru búið til nýtt hugtak til að lýsa því sem við erum að fjalla um, þá tillögu sem er til meðhöndlunar í þinginu, og það er lýsing hæstv. fjármálaráðherra, formanns VG, á ástæðu þess að við værum yfir höfuð að ræða þessi mál hér. Það sem hæstv. ráðherra sagði okkur var að forsendan fyrir myndun ríkisstjórnarinnar var að gengist yrði undir það að leggja fram tillögu af því tagi sem við ræðum í dag.

Þá liggur það fyrir að þessi tillaga er ekki endilega vegvísir, ekki endilega samningsmarkmið, ekki endilega samningsumboð heldur aðgangskort VG að ríkisstjórninni. Þetta minnti mig dálítið á liðna tíð þegar ég var, þótt ótrúlegt kunni kannski að hljóma, í barnastúkunni Lilju nr. 26 í Bolungarvík. Þá var það þannig að til að geta komist á fundi þar þurfti maður að kunna leyniorð sem við innvígðir fengum. Þannig er þetta núna, þetta er eins konar leyniorð, ESB, sem menn verða að geta tautað með nægilegum sannfæringarkrafti til að fá seturétt við ríkisstjórnarborð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þannig er þetta mál til komið eins og við vitum. Þetta eru í sjálfu sér ekki ný sannindi en það hefur þó alla vega verið staðfest og fært í búning í gögnum Alþingis að málið er þannig til komið að það er aðferð við að mynda ríkisstjórn. En það er ekki þannig, eins og hefur verið gjarnan haldið fram og m.a. var haldið fram hér fyrr í dag, að skortur hafi verið á því að Evrópumálin væru á dagskrá. Þau hafa verið á dagskrá og eru auðvitað á dagskrá. Það sem menn hafa hins vegar sagt í þeim efnum er að aðild að Evrópusambandinu væri ekki á dagskrá að mati tiltekinna stjórnmálaflokka, eins og Sjálfstæðisflokksins, en auðvitað hafa Evrópumálin verið linnulaust rædd á undanförnum árum.

Ég hef áður rifjað það upp að þegar ég sat í Evrópunefnd undir forustu Björns Bjarnasonar, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, og með núverandi hæstv. utanríkisráðherra og menntamálaráðherra svo dæmi séu tekin, þá held ég að yfir okkur hafi nánast gengið þegar við fengum lista yfir öll þau mál, allar þær skýrslur, allar þær bækur og meiri háttar ritverk sem hafa verið unnin um stöðu Íslands innan Evrópusambandsins. Þannig að það er ekki neinn skortur á framboði af umræðu. Mér hefur stundum fundist reyndar að það væri talsverður skortur á eftirspurn eftir þessari umræðu en það er önnur saga. Þessi mál hafa verið mikið rædd. Það hefur mjög margt skýrst. Okkur eru margir kostir betur ljósir núna en áður. Aðalatriðin eru auðvitað alveg orðin ljós og þau munu ekki breytast í samningaviðræðunum. Við vitum nokkurn veginn hvað upp úr pottinum kemur þannig að sú röksemdafærsla að það að leggja fram umsókn sé aðferð við að fá vita hvað okkur verði boðið upp á, gengur að mínu mati ekki upp.

Mér finnst sú hugmynd að sækja um eingöngu til að sækja um, í þeim tilgangi að skýra málin, vera miklu líkari því sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason orðaði það, þetta er einhvers konar pólitískt bjölluat. Það að láta opna fyrir sér dyrnar án þess að maður ætli nokkuð að fara inn. Ég held að hæstv. ráðherra hafi átt kollgátuna og ef það er ætlunin að leggja fram beiðni um samningaviðræður við Evrópusambandið á þeim grundvelli þá erum við að leika undarlega leiki sem ég held að eigi almennt talað ekki við hjá siðuðum þjóðum. Það hlýtur auðvitað að vera þannig að þeir sem ætla sér að ganga til viðræðna við Evrópusambandið gera það af fullri alvöru.

Það sem við lögðum til á sínum tíma þegar þessi mál voru upphaflega rædd í vor var þingsályktunartillaga sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn urðu sammála um og gekk í sem skemmstu máli út á að ef til þess kæmi að mögulega færu menn í viðræður við Evrópusambandið um aðild ætti að gera það með þeim hætti að fara mjög rækilega yfir málin, setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni okkar, vinna vegvísi, svo ég noti það hugtak aftur, að mögulegri aðildarumsókn sem tæki til umfjöllunar um öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna o.s.frv. Í sjálfu sér má segja sem svo, vilji maður vera mjög sanngjarn, að það plagg sem liggur fyrir núna, álit meiri hluta utanríkismálanefndar, sé tilraun til að setja upp vegvísi að því hvernig við gætum staðið að því að fara í slíkar viðræður. Það má segja að að þessu leyti sé málið nokkuð skýrara en það var þegar tillagan var lögð fram. Ég tek undir það að álit meiri hluta utanríkismálanefndar sé vel unnið plagg. Það er ítarlegt og greinargott á margan hátt. Það ber þess hins vegar mikil merki að það er tilraun til að bræða saman mjög ólík sjónarmið, enda liggur það fyrir að þeir stjórnmálaflokkar sem bera ábyrgð á þessari tillögu og standa að henni í meginatriðum hafa mjög skiptar skoðanir á því hvernig eigi að vinna gagnvart Evrópusambandinu. Við vitum að Samfylkingin, sem er burðarásinn í þessari tillögu, hefur verið eindregið þeirrar skoðunar á undanförnum árum að skilyrðislaust eigi að ganga til samningaviðræðna við Evrópusambandið. Hún hefur eins og allir aðrir slegið varnagla varðandi tiltekin hagsmunamál Íslands en engu að síður hefur Samfylkingin haft þetta mjög eindregið á stefnuskrá sinni.

Vinstri grænir hafa hins vegar gengið allra flokka lengst í andstöðu sinni við Evrópusambandið. Það er ekki þannig að þeir hafi viljað sérstaklega opna á einhverjar slíkar viðræður. Þeir hafa sagt sem svo, ef ég hef skilið þessar ályktanir þeirra rétt, að ef til þess kemur þurfi að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og um það er í sjálfu sér ekki mikill ágreiningur, hygg ég, en þar hefur hins vegar andstaðan verið langsamlega grimmust.

Þegar við vorum að ljúka skýrslu Evrópunefndarinnar vorið 2007 tókst samstaða milli Sjálfstæðisflokksins og VG um minnihlutaálit varðandi afstöðuna til Evrópusambandsins. Hins vegar herti VG mjög á afstöðu sinni til að undirstrika m.a. sérstöðu sína gagnvart Sjálfstæðisflokknum og lagði til að gengið yrði enn þá lengra og sagði sem svo að EES-samningurinn væri langt frá því að vera gallalaus, byggðist um of á forræði Evrópusambandsins, og að það gæti þjónað hagsmunum Íslands betur en ESB-aðild að þróa EES-samninginn í átt til einfaldari tvíhliða ramma um viðskipti og samvinnu. Með öðrum orðum, sú samrunaþróun, eða Evrópuþróun, sem hófst með tilkomu EES-samningsins í upphafi 10. áratugar síðustu aldar var að mati VG ekki hin æskilega niðurstaða heldur bæri að þróa þetta í þveröfuga átt við það sem lagt er til með þessari tillögu. Það var í raun og veru verið að leggja til einhvers konar 180° beygju í gagnstæða átt við stefnumótunina sem hér liggur fyrir. Þess vegna er mjög eðlilegt að þegar við lesum þetta plagg sjáum við margt í því sem er þannig að menn eru greinilega mjög efins. Það birtist líka í upphaflegu tillögunni þar sem, eins og hér hefur verið nefnt, er talað um að málsaðilar áskilji sér rétt til að fylgja samningsniðurstöðunni eða tala gegn henni.

Það er að mínu mati mjög undarlegt ef þeir sem taka þátt í samningaviðræðum hafa ekki skuldbundið sig til að hlíta niðurstöðunni. Málsaðilar er hugtak sem er notað í þessu sambandi en hlýtur að þýða ríkisstjórnin því að það er ríkisstjórnin sem auðvitað ber ábyrgð, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðunum, þó að það verði vitaskuld reynt, geri ég ráð fyrir, að hafa gott samstarf við Alþingi og raunar kveðið á um það í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar, en það breytir ekki því að ábyrgðin og forræðið verður hjá utanríkisráðherra. Þess vegna væri það mjög sérkennilegt ef málsaðili, ríkisstjórnin, sem kæmist að tiltekinni niðurstöðu, t.d. að leggja samning fyrir þjóðina og Alþingi, mundi ekki fylgja þeirri niðurstöðu eftir. Ég er alveg sannfærður um að Evrópusambandið mundi aldrei undirrita slíkan samning. Evrópusambandið mundi auðvitað ætlast til þess að ríkisstjórn sem gerði samninginn væri tilbúin til að fylgja honum eftir, því það er auðvitað svo að samningaviðræður sem þessar eru í eðli sínu flóknar og erfiðar og menn munu ekki leggja fram þá vinnu og það pólitíska kapítal, ef ég má orða það svo, sem þessu fylgir ef ekki væri alveg skýrt af hálfu þeirra sem við væri að semja að þeir fylgdu þá samningsniðurstöðunni. Þetta er svipað og maður gæti ímyndað sér ef verkalýðshreyfing og vinnuveitendur væru að semja og annar hvor samningsaðilinn segði eftir að búið væri að skrifa undir samninga: Við erum ekki endilega vissir um að við munum fylgja þessu eftir og reyna að fá þetta samþykkt í okkar baklandi. Það sjá auðvitað allir í hendi sér að svona geta menn ekki unnið. Þess vegna er ákvörðun um að fara til Brussel með ásetning um að reyna að freista þess að ná samkomulagi og vera þá tilbúinn til að bera á því alla pólitíska ábyrgð.

Eitt atriði hefur lítið borið á góma í þessari umræðu sem að mínu mati hefur þó verið bæði málefnaleg og góð og það er kostnaðurinn við umsóknina sjálfa og það mikla álag sem umsóknarferlið og vinnan við umsóknina mun hafa í för með sér fyrir okkar litla og veikburða stjórnkerfi. Það hefur oft verið rætt um þann kostnað sem íslenski ríkissjóðurinn verður fyrir ef við verðum aðilar að Evrópusambandinu. Ef ég man rétt var verið að tala um að nettókostnaður gæti verið á bilinu 10–12 milljarðar kr. fyrir okkur. Þá munu menn svara sem svo að á móti komi einhver annar ávinningur sem þjóðin hefur af þessu. En út af fyrir sig held ég að þetta hafi ekki verið vefengt. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þessari niðurstöðu og það er rakið meðal annars í skýrslu Evrópunefndarinnar hvernig að þeirri niðurstöðu var komist. Það er önnur saga. En hitt er mál sem við verðum líka að ræða og ræða algerlega opinskátt og það er bæði kostnaðurinn og álagið sem stjórnkerfið okkar verður fyrir meðan á samningaviðræðunum okkar stendur.

Þegar þessi mál eru skoðuð verð ég að segja eins og er að það kemur mér dálítið mikið á óvart hvað þessi mál eru illa útskýrð. Það blasir til dæmis alls ekki við, hvorki við lestur kostnaðarumsagnar utanríkisráðuneytisins né þegar lesið er kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins, hver hinn endanlegi kostnaður er. Það er greinilegt á öllu að verið er að reyna að draga úr því hver þessi kostnaður í rauninni verður með því að fela hann í alls konar hlutum til að hann komi ekki með eðlilegum hætti upp á yfirborðið. Fjármálaráðuneytið segir um þetta mál að matið sem það leggur á kostnaðinn sé bæði gróft og með mjög miklum skekkjumörkum. Þetta er ekki viðunandi. Það er ekki til það ómerkilega stjórnarfrumvarp sem lagt er fram á Alþingi að því fylgi ekki ítarlegt kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins hverju sinni. Ráðherrar sem ekki ganga frá slíku sem fagráðherrar eru gerðir afturreka við ríkisstjórnarborðið með sín mál. Þannig var það að minnsta kosti. Í rauninni er það lögformleg skylda að slíkt kostnaðarmat liggi fyrir. Ég tel að það sé mjög gagnrýnisvert þegar við erum að taka ákvörðun, ekki síst á svona tímum, um að ganga til þessara viðræðna að ekki liggi fyrir mjög vel útfært og áreiðanlegt kostnaðarmat á þessu máli vegna þess að við erum ekki að tala um neina smápeninga. Ef við skoðum mat fjármálaráðuneytisins á þessu þá kemur það til dæmis fram að mat þeirra á kostnaðinum er að hann geti numið á þessu tímabili 2009–2012 alls tæplega milljarði kr. Það sem kallað er annar kostnaður utanríkisráðuneytisins er 300 millj. kr., kostnaður hjá öðrum ráðuneytum 100 millj. kr. og þýðingarkostnaður 590 millj. kr.

Nú vil ég undirstrika það sem ég sagði að það er skoðun fjármálaráðuneytisins að mat utanríkisráðuneytisins sé gróft og með miklum skekkjumörkum. Ég vek líka athygli á því að í þessu mati eru undanskildir mjög stórir póstar. Það er til dæmis ekkert mat sérstaklega lagt í þessum kostnaðarliðum af hálfu utanríkisráðuneytisins á ferðakostnað. Þess vegna er líklegt að reikna megi með mjög miklum skekkjumörkum þar. Það er ekkert sérstakt mat lagt á hjá utanríkisráðuneytinu um sérfræðiþjónustu sem þurfi að kaupa. Það er talað um það í mati fjármálaráðuneytisins að þessi kostnaðarliður geti verið mjög umtalsverður.

Utanríkisráðuneytið nálgast þessi mál þannig að þeir reyna að ímynda sér að það megi meira og minna leysa þau með því að færa fólk til í verkefnum, bæði í stofnunum og í ráðuneytum varðandi allan undirbúning þannig að fólk sem núna starfar að einhverjum tilteknum málaflokkum innan ráðuneytanna og í stofnunum sem heyra undir þessi ráðuneyti og láta sig þessi mál sérstaklega varða, megi flytja til. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir væntanlega að um það verði tekin ákvörðun að einhver verkefni sem nú er verið að sinna í stofnunum — svo ég nefni stofnanir sem ég kannast aðeins við — eins og Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Matís eða einhverjum öðrum stofnunum sem starfa undir öðrum ráðuneytum en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, þ.e. að þetta fólk hverfi frá verkefnum sínum í þrjú ár meira og minna til að sinna því að undirbúa samningaviðræðurnar við Evrópusambandið. Með öðrum orðum þá er verið að taka um það pólitíska ákvörðun án þess að það sé sagt berum orðum að hverfa frá einhverjum verkefnum sem unnið er að nema menn séu þá að segja að það sé svo létt og lítið vinnuálag í þessum stofnunum og ráðuneytum að menn geti nú bara bætt þessu einfaldlega á sig. Ég þekki það vel til í stjórnsýslunni, hjá Stjórnarráðinu og stofnunum þess að ég veit að þar er fólk að vinna hörðum höndum og það er í raun verið að tala um að færa fólk úr þessum verkefnum. Þetta vitum við auðvitað að er algerlega óraunhæft. Fiskifræðingarnir sem meta stærð fiskstofnanna munu ekki hætta því til að undirbúa umsóknina úti í Brussel. Fólkið hjá Matvælastofnun sem fylgist með öryggi matvæla hættir ekki að fylgjast með því til að vinna að undirbúningi varðandi umsóknina í Brussel. Það er ekki þannig. Þetta er bara dulinn kostnaður sem er verið að reyna að sópa undir teppið, láta eins og menn hafi ekki tekið eftir honum, ekki orðið varir við hann til að þetta mál líti eitthvað betur út.

Sumir segja kannski að þetta sé allt saman aukaatriði, að þetta séu ekki stóru málin í þessari stórkostlegu sýn að gerast aðili að Evrópusambandinu. En ég vil segja að þegar við erum að tala um beinharða peninga upp á 1 milljarð kr. að mati fjármálaráðuneytisins með miklum skekkjumörkum, grófa nálgun og þegar við bætum síðan við allri þeirri óvissu sem ég var að rekja þá eru þetta þó peningar, sérstaklega hjá þjóð sem býr núna við það að við erum að skera niður, að hækka skatta, leggja byrðar á almenning og fyrirtæki af ástæðum sem öllum eru ljósar.

Það er til dæmis ljóst að í dag er staðan sú að við erum varðandi okkar þýðingarvinnu sem er nauðsynleg vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið langt á eftir. Við eigum mikla vinnu óunna við að þýða gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins sem við erum að lögtaka. Það er búið að fjölga mikið starfsfólki í þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins og eins og ég les út úr þessum umsögnum utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að ráða þurfi 24 þýðendur til viðbótar og umfang þýðingar sé samtals 30–50 þúsund blaðsíður. Af því að hér er rithöfundur inni væri hægt að margfalda þetta og átta sig á því að þetta eru kannski, eigum við að segja, svona 100 myndarlegar skáldsögur þó ég sé ekki að segja að tilskipanir Evrópusambandsins séu skáldsögur. En það er dálítið áhugavert hvernig utanríkisráðuneytið nálgast svo þetta verkefni upp á 30–50 þúsund blaðsíður með 24 viðbótarþýðendum. Nú ætla ég að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að vitna beint í það sem segir í áliti utanríkisráðuneytisins:

„Í því samhengi er rétt að hafa í huga að með þessu verkefni mun skapast atvinna fyrir háskólamenntaða stétt þýðenda en auk þess má nefna að sú staðreynd að ESB mun við mögulega aðild Íslands þurfa á sérhæfðri túlka- og þýðendaþjónustu að halda á íslensku kallar á það að íslenskir háskólar skipuleggi nám á þeim sviðum sem skapa mun aukin tækifæri fyrir tungumálamenntað fólk.“

Af því að ég er gamalreyndur þingmaður sem hefur stundum fjallað um atvinnumál þá hefði þetta heitið í þeim kokkabókum átak til atvinnusköpunar og er út af fyrir sig ekki ómerkilegra en margt annað í þessum efnum. En þetta er ég bara að draga fram þó ég geri ráð fyrir því að margir munu reyna að blása á þetta og telja að þetta ekki mikið mál. Ég vil hins vegar draga fram að það liggur þá fyrir að við erum að tala um væntanlegan lágmarkskostnað upp á milljarð kr. og væntanlega með öllum þessum skekkjum, með öllu því sem verið er að sópa undir teppið erum við að tala um miklu hærri upphæðir og síðan að því frátöldu, sem ég nefndi lauslega áðan, mun auðvitað skapast gríðarlegt álag í stjórnkerfinu. Við erum að fara inn á brautir sem við þekkjum ekki vel og það þarf að vinna upp þessa þekkingu, afla hennar og það skapar gífurlega mikið álag í stjórnkerfinu. Ég þekki það sjálfur. Við erum með tiltölulega lítil ráðuneyti þar sem bara sumarleyfistími og slíkt skapar mikið álag og gerir það að verkum að ýmis verkefni frestast. Því sjáum við þegar svona er verið að gera að það mun hafa heilmikið í för með sér fyrir stjórnsýsluna í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hef sérstaklega velt fyrir mér í þessu sambandi því sem snýr að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Þar er margt í sjálfu sér spaklega sagt og reynt, svona eins og hæstv. utanríkisráðherra hefði kannski orðað það, að róa fyrir allar víkur til að tryggja að engu sé gleymt þegar verið er að fjalla um hvaða hagsmuni menn eigi að verja, hvað menn verði að tryggja þegar gengið er til viðræðna við Evrópusambandið. Það er farið mjög nákvæmlega yfir það hvaða verkefnum til dæmis í sjávarútvegsmálum menn þurfi að sinna, hvaða hagsmunum í landbúnaðarmálum við eigum að sinna. Ég verð að segja eins og er að þegar maður les þetta þá finnst mér einhvern veginn að ekki sé verið að tala um þetta Evrópusamband sem við erum vanir að tala um og köllum því orði því að það sem verið er að tala um í þessu sambandi er ekki Evrópusambandið sem staðsett er úti í Brussel. Þetta hlýtur að vera eitthvert allt annað Evrópusamband. Það er eins og við séum ekkert að sækja um aðild að ESB í Brussel eins og við höfum talað um heldur eitthvert allt annað Evrópusamband sem lýtur allt öðrum pólitískum lögmálum sem eru með allt aðrar „interessur“.

Nú hef ég nokkrar áhyggjur af því að þegar hæstv. utanríkisráðherra skrifar bréfið sitt til Brussel og biður um áheyrn hjá því æruverðuga valdi þar úti að þá verði addressan á bréfinu röng, hún verði ekki Berlaymont, 200 Wetstraat/Rue de la Loi — nú vona ég að menn fyrirgefi minn franska framburð sem ég lærði fyrir 35 árum hjá Bryndísi Schram og verður ekki á hennar reikning skrifað þó þetta sé ekki mjög vel fram borið — heldur verði þá addressan einhver allt önnur því hér er verið að fjalla um hlutina með allt öðrum hætti en við þekkjum í rauninni í Evrópustefnunni í sambandi við sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin og ætla ég að fara yfir það fáeinum orðum.

Á blaðsíðu 15 í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar er sagt sem svo, með leyfi virðulegs forseta:

„... meiri hlutinn telur að með þessu“ — sem vísað var til, svona almenn stefnuyfirlýsing — „megi tryggja að breytingar sem verða á fiskveiðistjórn hér á landi verði að undirlagi íslenskra stjórnvalda og áhrif landsins aukist á þessu sviði í Evrópusamstarfi. Þá verði forræði þjóðarinnar tryggt yfir sjávarauðlindinni og þannig búið um hnútana að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt.“

Þetta eru gríðarlega háleit markmið. En eru þessi markmið eitthvað nálægt veruleikanum sem við erum að fjalla um? Er líklegt að við getum tryggt að þær breytingar sem verða á fiskveiðistjórn hér á landi verði að undirlagi íslenskra stjórnvalda þegar við erum komin undir hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins? Er líklegt að við getum tryggt aukin áhrif okkar á framkvæmd sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða að forræði þjóðarinnar verði tryggt yfir sjávarauðlindinni? Allir sjá auðvitað að þetta er kafli sem markast af fullkominni óskhyggju.

Það er til dæmis talað um í þessu sambandi að það væri raunhæft að lögsaga okkar verði skilgreind sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta er dálítið kunnuglegt. Þetta hafa menn reynt að segja áður. En það er margbúið að fara yfir þetta og meira að segja í skýrslu Evrópustefnunefndarinnar og þar er vakin athygli á því að þessir möguleikar, að skilgreina fiskveiðilögsöguna sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði sem lúti okkar stjórn, geti byggst á tveimur tegundum sérstakra stjórnunarsvæða, annars vegar er um að ræða líffræðilega viðkvæm svæði og dæmin sem menn nefna eru mjög takmörkuð svæði, mjög skilgreind takmörkuð svæði. Það er alveg ljóst, eins og bent er á í þessari skýrslu, að þetta gæti átt við um tiltekin afmörkuð svæði við Ísland en alls ekki íslenska landgrunnið né íslensku efnahagslögsöguna því að auðvitað er ekki hægt að færa fyrir því rök að það sé í heild líffræðilega viðkvæmt svæði sem við erum búin að stunda veiðar á með ýmsum veiðarfærum öldum saman. Það liggur í augum uppi. Við erum væntanlega að tala hér um þá einhver hólf, svipuð hólf og við erum með hér og þar í lögsögu okkar en annað ekki.

Síðan er hitt sem gæti þá átt við um þetta sem hér er verið að leggja til. Það er það sem kallast sérstök stjórnarsvæði sem byggjast á efnahagslegum og landfræðilegum aðstæðum. Dæmin um slíkt í Evrópusambandinu byggjast á hafsvæðum sem eru við mjög afskekkt, einangruð lítil lönd þar sem er óhagsætt veðurfar, efnahagslífið háð örfáum tegundum framleiðsluvara og svo framvegis. Við erum að tala hér um skínandi fátæk svæði. Það á auðvitað ekki við um Ísland.

Í þessum óskhyggjukafla er líka talað um að mikilvægt sé að Íslendingar fari með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum. Þetta vitum við líka að á sér ekki stað. Það er margföld reynsla fyrir því. Evrópusambandið fer með samningsumboð og algjört forræði varðandi þessa deilistofna fyrir þau lönd sem eru aðilar að Evrópusambandinu. Ég hef sjálfur setið fundi þar sem sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins hafa verið og þeir lúta bara valdboði og hneigja sitt höfuð þegar sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins talar fyrir þeirra hönd í þessum málum. Það er bara þannig. Við eigum stöðugt samskipti við Evrópusambandið, ekki einstök lönd Evrópusambandsins, þegar verið er að fjalla um svokallaða deilistofna á hverju einasta ári þannig að fyrir þessu er margföld reynsla.

Nákvæmlega sama gildir þegar við ræðum um að við getum ef til vill fengið einhverja undanþágu varðandi svigrúm fyrir erlendar útgerðir eða fjárfesta hér á landi. Þessu er slegið þarna fram. Það liggur líka fyrir að þetta er slíkt grundvallaratriði í Evrópusambandslöggjöfinni, þ.e. frelsi til þess að fjárfesta yfir landamæri, að ljóst er að það er úti á túni enda er um leið þegar nánar er lesið í þessu áliti meiri hlutans dregið mjög í land og sagt: „Kannski verðum við að ná þessu með öðrum aðferðum. Kannski verðum við að gera það með einhverjum þeim aðferðum sem þar eru nefndar og eru þær aðferðir sem Bretar hafa beitt til þess að reyna að búa til einhverja byggðafestu varðandi sjávarútveginn við Bretland. En allir vita auðvitað að það hefur verið til lítils og nánast algjörlega óbrúklegt mál.

Megingallinn við álit meiri hluta utanríkismálanefndar í sambandi við landbúnaðarmálin er að þar er aðalatriðinu sleppt. Þar er því sleppt sem er kjarni málsins þegar kemur að landbúnaðinum og er á vissan hátt ástæðan fyrir því að sumir hv. þingmenn tala um að aðild að Evrópusambandinu geti lækkað hér matvöruverð. Það er sú staðreynd að daginn sem við gerumst aðilar að Evrópusambandinu er tollvernd gagnvart íslenskum landbúnaði lokið. Þetta er grundvallaratriði. Við erum að vísu núna með matvælafrumvarp frá hæstv. ríkisstjórn sem gengur út á það að innleiða matvælalöggjöfina. En það er gert hins vegar með þeim hætti að svína á matvælalöggjöf Evrópusambandsins og hverfa frá því eða taka ekki tillit til þess sem er aðalatriðið í þeirri matvælalöggjöf. En látum það liggja á milli hluta. Hitt er það að í þessu áliti er skautað fram hjá aðalatriði málsins sem er það að tollverndin fellur niður. Þess vegna er það svo að í raun er þessi kafli býsna fátæklegur að þessu leytinu. Það er ekki fjallað um þetta atriði. Hins vegar er velt upp ýmsum möguleikum á því að við getum skilgreint landbúnað okkar sem einhvers konar heimskautalandbúnað eins og gerðist í Finnlandi. En afleiðingin fyrir finnskan landbúnað varð ekki mjög burðug og þegar tekið er tillit til þess að við Íslendingar búum við mjög mikla tollvernd er alveg ljóst að okkar landbúnaður færi mjög illa.

Á sínum tíma var farið mjög ítarlega yfir þessi mál í skýrslu þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og þar var komist að klárri niðurstöðu um þetta, um nánast allar tegundir landbúnaðar, að sá landbúnaður mundi ekki standast þá miklu áraun sem yrði ef Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Það er sama hér varðandi sjávarútveginn að þar er ýmsu slegið fram en síðan dregið dálítið í land þegar þeir sem skrifa þennan texta hafa áttað sig að þetta er kannski ekki líklegt til að standast. Ég vil til dæmis vekja athygli á þessum orðum í álitinu, með leyfi virðulegs forseta:

„Á sama hátt telur meiri hlutinn ríka ástæðu til að kannað verði til hlítar hvort sérákvæði Rómarsáttmálans um eyjar og héruð sem eru í mikilli fjarlægð frá meginlandi Evrópu geti átt við um stöðu Íslands. Telur meiri hlutinn að sérstaða Íslands geti átt ýmislegt sameiginlegt með þeim fjarlægu eyjum og héruðum, sbr. ákvæði 299. gr. Rómarsáttmálans,“ — en síðan er varnaglinn sleginn — „þótt hafa verði í huga að félags- og efnahagsleg staða Íslands er ólík þeim svæðum sem ákvæðið á við um.“

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Það er ekki verið að tala um landsvæði eins og okkar í þessari tilteknu ívitnuðu grein Rómarsáttmálans. Það er verið að tala um fátæk héruð þar sem aðstæður eru ólíkar okkar. Með öðrum orðum, þegar við tölum um þessa tvo meginþætti, sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin, er alveg ljóst að sú umfjöllun byggir á hreinni óskhyggju. Vegvísir sem byggist á óskhyggju þegar menn fara af stað í samningaviðræður er ekki mjög líklegur til þess að skila árangri. Við munum þá fara fram með hugmyndir sem við vitum fyrir fram innst inni að verða slegnar út af borðinu á fyrsta fundi og það tel ég að sé mjög slæmt.

Virðulegi forseti. Vandinn við Evrópusambandsmálin er sá að gríðarlegt ósætti ríkir um það mál. Við þekkjum að þetta ósætti hefur komið fram í umræðunum í dag og í hvert skipti sem þessi mál hefur borið á góma og það er grundvallarágreiningur um þessi mál milli flokka, jafnvel innan flokka, og meðal þjóðarinnar. Þetta hefur glögglega komið fram í hvert skipti sem hefur hert á umræðunni um Evrópusambandsmálin. Þess vegna tel ég að það skipti gríðarlega miklu fyrir okkur þegar þessi mál ber hér á góma og þegar við reynum að taka ákvarðanir um það hvernig við ætlum að haga okkar samstarfi í Evrópusambandinu að við reynum að vanda okkur sem best og reynum eins og við getum að skapa sem mesta sátt um Evrópumálin þegar við leggjum af stað í þá vegferð sem ríkisstjórnin vill að við gerum með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna er það að mínu mati algjört grundvallaratriði að áður en við göngum til þessara viðræðna — verði það niðurstaða þingsins að það verði gert — að þá tel ég að það sé algjört grundvallaratriði að áður en það gerist verði leitað eftir, við getum sagt, samningsumboði þjóðarinnar til þess að árétta hver sé skoðun þjóðarinnar í þessum efnum vegna þess að að mínu mati væri það mjög vont verklag ef við legðum af stað með aðildarumsókn til Evrópusambandsins til dæmis í blóra við vilja þjóðarinnar. Það væri ekki gott upphaf þessarar miklu vegferðar og gæti örugglega haft ýmislegt illt í för með sér. Þess vegna skiptir miklu máli að til staðar sé mjög skýrt umboð áður en verður farið af stað í hugsanlegar aðildarviðræður. Þannig fengi þjóðin sjálf að ákveða hvort lagt verði af stað í þessa miklu ferð.

Ég trúi því ekki að að minnsta kosti þeir sem tala því máli að þjóðin þurfi að fá að vera með í ráðum frá upphafi leggist gegn þessari tillögu. Þetta er eðlileg lýðræðisleg tillaga sem ég trúi að þingið muni að lokum staðfesta. Ég er sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um að það sé örugglega og klárlega pólitískur meiri hluti fyrir þessu. Það er einungis spurning um það hvort ríkisstjórninni muni takast að beygja menn til fylgis við það að hafna þessari tillögu. Það mun koma í ljós einhvern tíma í næstu viku þegar við greiðum um þetta atkvæði væntanlega ef umræðu verður þá lokið. En fyrr kemur það auðvitað ekki í ljós. Ég trúi því að í rauninni sé um þetta pólitískur meiri hluti.

Hitt er að þegar menn leggja síðan af stað í þessar samningaviðræður, þó að þeir fari af stað með þessi óraunhæfu draumórakenndu markmið í stórum málaflokkum eins og sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, alveg eins og ég hef rökstutt hérna í máli mínu, þá er það auðvitað þannig að ef niðurstaða næst og menn koma heim með samning sem þeir vilja að verði samþykktur er langsamlega eðlilegast að það verði gert eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt, þ.e. með því að leggja hann fyrir þingið og að lokum verði það síðan þjóðin sem staðfesti hann með sinni ákvörðun. Þannig hafa menn almennt gert þetta. Þannig var þetta gert til að mynda í Noregi, og þess vegna felldu Norðmenn slíkan samning. Þeir höfðu lokasvarið. Þetta er ekki spurning um hvort þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að vera ráðgefandi eða ekki. Þjóðin hlýtur að hafa síðasta orðið.

Það er dálítið skrýtið að hlusta á umræður um að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla geti gegnt sama hlutverki. Af hverju er hún þá ráðgefandi? Er það ekki þannig að ef menn ætla að taka fullt tillit til þjóðarinnar þá hljóti sú þjóðaratkvæðagreiðsla að vera í eðli sínu bindandi? Það er eðlilegast. Við vitum líka að það þarf að breyta stjórnarskránni. Aðild að Evrópusambandinu mun fela í sér valdaafsal, fullveldisafsal. Um það er í raun enginn ágreiningur. Menn hafa margoft rætt um það hvernig þyrfti að breyta stjórnarskránni og textar hafa verið settir niður á blað sem við höfum rætt hér í þinginu. Það er alveg ágreiningslaust. Í sjálfu sér má deila endalaust um réttmæti þessa. En kjarni málsins er sá að það þarf að breyta stjórnarskránni og við vitum að samkvæmt stjórnarskránni í dag þarf að staðfesta síðan á tveimur þingum. Ég held þess vegna, yrði það niðurstaðan að fara í þessar viðræður og yrði það niðurstaðan að samningur fengist sem ríkisstjórn á þeim tíma vildi fá staðfestan, að þá væri þetta eðlilegasta verklagið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir nokkur atriði sem mér finnst máli skipta í sambandi við Evrópumálin. Ég hef verið að reyna fremur að einskorða mig við umræðu sem ekki hefur átt sér stað fram að þessum tíma. Ég hef farið nokkuð rækilega yfir ýmislegt sem mér finnst vera vanreifað í bæði áliti utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins varðandi kostnað við aðildarumsóknina, það álag sem verður í stjórnkerfinu, þær hugsanlegu breytingar sem verða á starfi einstakra stofnana og ráðuneyta sem afleiðing af því að við erum að hefja þessa miklu vinnu. Aðalatriðið í mínu máli hefur snúið að þessum tveimur málaflokkum, sjávarútvegi og landbúnaði, vegna þess að ég tel að það felist allt of mikil óskhyggja og draumórakennt tal í áliti meiri hlutans að þessu leytinu. Þetta eru ekkert óeðlileg markmið. Það er ekkert óeðlilegt að við viljum verja það að við höfum forræði yfir okkar stofnum, að við höfum forræði yfir deilistofnunum, að við getum sjálf ráðið því hvernig við skipum okkar fiskveiðistjórn og það er einmitt af þeim ástæðum sem ég og margir fleiri hafa meðal annars verið andsnúnir því að ganga í Evrópusambandið vegna þess að við höfum ekki haft neina trú á því að við gætum viðhaldið þessu innan Evrópusambandsins og það er ekkert sem bendir til þess. Það þarf ekki sérstakar samningaviðræður til þess að leiða það fram. Það blasir svo við og hefur margoft komið fram í þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin.

Nákvæmlega sama máli gegnir um landbúnaðinn. Þar er skautað fram hjá því sem er aðalatriði málsins, sem er kjarni málsins, að um leið og við göngum í Evrópusambandið verðum við að hverfa frá þeirri miklu tollvernd sem við höfum.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að annar stjórnarflokkurinn, VG, Vinstri grænir, hefur á undanförnum missirum mjög talað um að það þurfi að auka tollvernd gagnvart landbúnaði. Í þau skipti sem við höfum rætt matvælalöggjöfina á þinginu þá hefur það verið eitt kjarnaatriðið í málflutningi VG að meðal annars væri ekki nægilega vel séð fyrir tollverndinni gagnvart íslenskum landbúnaði. Ég er að vísu ekki sammála því. En þetta er þeirra skoðun. Mér er ekki kunnugt um að hún hafi breyst. Þess vegna hefur það vakið mikla undrun hjá mér hversu menn eru tilbúnir á þeim bæ þrátt fyrir allt að undirgangast þessa vegferð sem verið er að leggja í til þess að treysta, til þess að tryggja sér aðgöngumiða og fá leyniorðið sem gerði þeim kleift að komast inn í ríkisstjórnarherbergið.