137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ljóst af ræðu hv. þingmanns að hún vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hún hefur ofurtrú á þeirri breytingartillögu hv. utanríkismálanefndar að taka skuli tillit til sjónarmiða í nefndaráliti. Ég trúi hins vegar að það þurfi ekkert að halda, hæstv. utanríkisráðherra gerir bara það sem honum dettur í hug og segist hafa tekið tillit til sjónarmiða — því að sjónarmið eru bara sjónarmið.

Nú skulum við hugsa okkur að eftir 10 ár í ESB fari að koma í ljós hvað það þýðir að Ísland þurfi að sæta meginhluta ákvarðana utan frá, lengst í burtu, og að hér komi upp sá doði og deyfð sem einkennir landsvæði sem eru langt frá miðju ákvarðanaferlis. Ég nefni litla staði úti á landi á Íslandi sem eru langt frá höfuðborginni og ég nefni svæði í Evrópu sem eru langt frá miðstöðinni í Brussel. Setjum sem svo að hv. þingmanni snúist hugur í þessu og þá spyr ég hv. þingmann hvort hann sé ekki til í að stofna með mér sjálfstæðisflokk.