137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér áðan hvort ég ætti að fara í andsvar við hv. þm. Pétur H. Blöndal eða láta andsvarið bíða þar til kæmi að mér í minni ræðu, en ég vil gjarnan virða hann svars.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill ræða um ábyrgð stjórnmálaflokksins Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnvart þjóðinni og þá væntanlega þjóðarviljanum og lýðræðinu. Ég gæti spjallað lengi við hv. þingmann um ábyrgð eða öllu heldur ábyrgðarleysi sem hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur sýnt í tímans rás gagnvart þjóðinni og varðandi þetta sama málefni líka.

17. dag ágústmánaðar 1992 var útbýtt hér á Alþingi þingskjali um hið Evrópska efnahagssvæði og aðild Íslands að því. Það var rætt allt haustið og fram yfir áramótin þar til það var lögfest 12. janúar 1993. Sjálfstæðisflokkurinn spurði þjóðina aldrei álits. Þó mátti heyra á öldum ljósvakans auglýsingar, ákall, umræður, og í blöðunum voru skrif. Það voru undirskriftalistar með tugum þúsunda undirskrifta þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var beðinn um að leyfa þjóðinni að kjósa um málefnið: Áttu Íslendingar að ganga inn í hið Evrópska efnahagssvæði? Þetta var þjóðinni meinað um, (Gripið fram í.) henni var meinað að gera þetta.

Við erum komin þar á veg í lýðræðisþróuninni sem betur fer að nú lætur enginn sér til hugar koma annað en að innganga Íslands í Evrópusambandið yrði borin undir þjóðina. Það var ekki gert þegar við undirgengumst skilmála hins Evrópska efnahagssvæðis og þó þekkjum við öll hvaða áhrif þeir hafa haft á allt okkar þjóðlíf, allt okkar efnahagslíf og svigrúm til athafna. Það höfum við fengið að finna á undanförnum árum þegar við höfum þurft að endurskipuleggja raforkugeirann, að taka tryggingarnar — brunatryggingarnar í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, voru reknar í skrifborðsskúffu hér einhvers staðar í bænum fyrir lítinn pening en skiluðu svo miklum arði að hann dugði hátt í að reka slökkvilið Reykvíkinga. Það voru allir á móti því, nánast, sem spurðir voru hvort heppilegt væri að taka brunatryggingar í Reykjavík, aðgreina þær og setja þær síðan út á markað — sem reyndist dýrara fyrir samfélagið. Hvers vegna var það þá gert? Jú, Brussel fyrirskipaði það. Svona gæti ég tekið fjölmörg önnur dæmi.

Ég ætla ekki að dvelja við rúmið hans Sigvalda Kaldalóns í Ármúla, sem núna er bannað að nota í bændagistingu vegna þess að það samræmist ekki Evrópustöðlum. Ég gæti tekið önnur dæmi líka sem eru öllu alvarlegri og snúa að almannaþjónustunni, hvernig smám saman er verið að herða að henni með því að færa hana nær markaðstorginu. Þar erum við í stöðugri vörn gagnvart ásælni fjármagnsaflanna sem eiga greiða leið um gangvegi Brusselborgar. Þetta eru bara staðreyndir.

Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn hans hv. þm. Péturs H. Blöndals, meinaði þjóðinni að koma að ákvarðanatöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég man eftir því að verkalýðssamtökin, ASÍ, BSRB, Neytendasamtökin, Bændasamtök Íslands, (Gripið fram í.) nánast öll almannasamtök í landinu sameinuðust um að biðja þáverandi ríkisstjórn um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga málefni.

Við höfum rætt mikið í þjóðfélaginu og hér í þingsal líka hvort ekki sé ráð að rýmka reglur sem gera almenningi kleift að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskiljanleg brýn málefni. Við höfum verið þessu fylgjandi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og það er tímaspursmál hvenær slíkar reglur verða rýmkaðar. Ef við værum komin þar í mannkynssögunni að slíkar lagabreytingar hefðu verið gerðar sem opnuðu á þjóðarviljann að þessu leyti, 20% atkvæðisbærra manna gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, væri þetta mál komið á dagskrá, á því leikur enginn vafi. Ég ræð það af hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri á undanförnum árum. Það hefur skipst þetta á 40 á móti 60, 50 á móti 50. Það er drjúgur hluti þjóðarinnar sem á þetta vill láta reyna. Um það snýst þetta í mínum huga, að láta á málið reyna.

Síðan getum við deilt um hvernig við eigum að bera okkur að. Á að spyrja þjóðina fyrst og ganga síðan til viðræðna? Það finnst mörgum eðlilegt, mér finnast mikil rök fyrir því sjálfum. Á að láta reyna á samning og bera hann síðan undir þjóðaratkvæði? Ýmsir stjórnmálaflokkar hafa viljað fara þá leið, Samfylkingin sérstaklega, (Gripið fram í.) sem vill fyrst sækja um aðild, fá samningsdrög og bera síðan undir þjóðaratkvæði. (Gripið fram í: Sem er ekki bindandi.) Sem er ekki bindandi, segir hv. þingmaður. Ég tek nú undir málflutning hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur hér áðan, að hvort sem það væri bindandi samkvæmt lagatextanum eður ei þá yrði það að sjálfsögðu siðferðilega bindandi fyrir Alþingi. (Gripið fram í: Ekki fyrir Ásmund.) Við skulum ekkert gera lítið úr hans málflutningi. (Gripið fram í: Ég er alls ekki að gera það.)

Ég hef alltaf haft þá skoðun að það sé nokkuð vitað hvað er í boði af hálfu Evrópusambandsins, það er mín skoðun. Ég held að við vitum að það sama yrði í boði gagnvart Íslandi og öðrum ríkjum sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu, það er aðkoma að hinum innri markaði og öllu grunngangverki Evrópusambandsins. Það eru ekki allir sammála mér. Ýmsir telja að þau álitamál sem við teljum brýnt að fá á borðið, sjávarútvegsmálin og ýmis önnur mál, þurfi að láta reyna á í samningum. Þetta er viðhorf sem er við lýði hjá stórum hópum í þjóðfélaginu. Á þessari forsendu, þegar saman kemur eindreginn vilji samstarfsflokks okkar í ríkisstjórn og þetta viðhorf sem er víða að finna í þjóðfélaginu, get ég fellt mig við þessa þingsályktunartillögu. Ekki er þar með sagt að ég muni ekki berjast gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið, eins og ég hef gert, nema einhver grundvallarbreyting eigi sér stað í mínu vitsmunalífi eða sálarlífi.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir vék að Lettlandi hér áðan, efnahagsþrengingunum þar. Það vill svo til að ég hitti heilbrigðisráðherra Lettlands fyrir fáeinum dögum. Ég held að það hafi verið annar eða þriðji heilbrigðisráðherrann í Lettlandi á skömmum tíma. Forveri hennar var nýfarinn frá, hafði ekki hugnast alls kostar lækningamixtúra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er líka í heimsókn í Lettlandi og með mixtúrur svipaðar og hann er að kynna okkur um harkalegan niðurskurð, kröfu um niðurskurð á velferðinni.

Ég spurði: Finnið þið ekki skjól í Evrópusambandinu? Hefur verið rætt um það hjá ykkur að taka upp evru? Nei, það er afar langur vegur frá því að við fáum heimild til slíks, sagði ráðherrann. En hafið þið fengið einhverja aðstoð frá Evrópusambandinu, einhverja peninga, einhvern stuðning? Forveri þinn í starfi fór frá af því að hann orkaði ekki að horfast í augu við eigin gjörðir, sem var að segja upp heilbrigðisstarfsmönnunum, loka spítölunum og draga úr velferðarþjónustunni að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Jú, við fáum einhverja peninga að sönnu. Eru það styrkir? spurði ég. Nei, nei, nei, það eru ekki styrkir, þetta er allt á háum vöxtum, þetta er á hárri rentu. Hver kallaði Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til sögunnar ykkur „til aðstoðar“? Það voru vinir okkar í Evrópusambandinu.

Af þessum sökum langaði mig til að gera eina litla játningu fyrir Alþingi. Játningin er á þá leið að eftir því sem dagarnir og vikurnar hafa liðið þeim mun erfiðara á ég með að sætta mig við það að við skulum sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þegar ég hugsa til þess hverjir það eru sem reynast eigendur vinarklónna sem um okkur halda. (Gripið fram í: Felldu nú tillöguna.) Það eru Evrópusambandsríkin. En … (Gripið fram í: En, en.) en — og ég er ekki í nokkurri einustu mótsögn við sjálfan mig — ég vil virða lýðræðið og horfa til þess að það er annað fólk á öndverðum meiði við mig. Það eru margir og það eru heilir stjórnmálaflokkar sem telja að einmitt í Evrópusambandinu sé að finna skjól. Þá greinir okkur á um þetta og við tökumst á um þetta.

Ég held að svo sé komið að við verðum að leiða þetta mál til lykta. Hér eru stjórnmálaöfl, sérstaklega Samfylkingin, sem telja allra meina bót að komast inn, svona eins og lærisveinarnir tólf, þeir vissu hvert átti að halda með hjörðina, þurftu engan meirihlutavilja til að segja fyrir um það, allt gott í himnaríki, Evrópuvextir, ekkert atvinnuleysi.

En vel á minnst, á Íslandi er held ég núna 8,3% atvinnuleysi, það er aðeins lægra í kreppunni hjá okkur en í Evrópusambandinu að meðaltali. Síðan þetta með verðbólguna, evran, það er engin verðbólga, það er sama verðbólgan alls staðar, eða hvað? Kostar kaffibollinn það sama í Norður-Finnlandi og suður á Sikiley? Nei. Þróast verðlagið á kaffibollanum með sama hætti? Nei. Eru lífskjörin hin sömu í sunnanverðri Evrópu eða austanverðri og í henni norðanverðri? Nei. Allt hrynur þetta, öll hrynur þessi glansmynd þegar farið er að skoða hana, og það þurfum að gera og munum gera á komandi mánuðum og árum í tengslum við Evrópuumræðuna, þ.e. að taka málin og greina þau. Erum við hrædd við það? Ekki ég.

Síðan er hitt, þessar þúsund milljónir sem það kostar. Mér finnast það miklir peningar. Nú ætla ég að trúa þinginu fyrir litlu leyndarmáli, enn einu. Sumir telja þetta vanreiknaða upphæð. Ég held, ykkur að segja, að hún sé stórlega ofreiknuð. Ég held að það væri hægt að klára málið á einni viku. Ég held að þetta liggi allt saman meira og minna á borðinu. En ég veit að það er dýrt að senda heila flugvélafarma af sérfræðingum og láta þá halda við lengi í Brussel. Það er dýrt og verður eflaust gert. En mín sannfæring er að hægt væri að klára málið á mjög skömmum tíma.

Það er líka mín sannfæring að við búum betur á hinu Evrópska efnahagssvæði en innan Evrópusambandsins þótt ég viðurkenni, og ég hef mikla reynslu af starfi á vettvangi Evrópusambandsins í verkalýðsmálunum, að auðvitað er það greiðari aðkoma að ákvarðanamyndun og umræðum að vera þar innan vébandanna. En við gátum núna á dögunum með nýjan heilbrigðisráðherra í heilbrigðisráðuneytinu sett fyrirvara við þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Við settum fyrirvara eins og Norðmenn. Það gat ekkert Evrópusambandsríki gert það. Hver var fyrirvarinn? Fyrirvarinn sneri að því að verja kjarna velferðarþjónustunnar, heilbrigðisþjónustunnar fyrir markaðsöflunum. Þetta gátum við gert. Þetta gat Frakkland ekki gert og ekki Belgía, ekki Bretar, ekki Danir og ekki Svíar, en við gátum það og Norðmenn gátu það og við gerðum það.

Síðan enn eitt sem mig langar til að nefna varðandi Evrópusambandið og himnaríkið mikla sem á að halda með okkur inn í. Öll réttindin sem launafólkið er að fá í Evrópu, þar er svo mikið af réttindum. Hafa menn gert sér grein fyrir því að allt það besta í réttindakerfi launafólks á Íslandi varð til af völdum okkar sjálfra? Við sjálf bjuggum til fæðingarorlofið. Við sjálf bjuggum til það besta í lífeyriskerfi okkar. Við sjálf bjuggum til það besta í veikindaréttinum.

Síðan er hitt að sá sem ætlar að hagnast á eða hafa af því viðurværi og góða framtíð að sérhæfa sig í sjóðunum í Evrópu og láta berja sig til verkanna, hýða sig til hlýðni til að taka upp öll góðu réttindin, hann endar sem þræll. Hann glatar frumkvæði sínu og endar sem þræll.

Það góða við okkar samfélag, við Ísland — gott að minnast þess á þessum erfiðleikatímum — er frumkvæðið, dugnaðurinn og krafturinn sem býr með þessari þjóð. Ég leyfi mér að fullyrða að þegar hugurinn stendur til þess eins að kunna skil á hvar á að ná í peninga í digrum sjóðum dregur úr þessu frumkvæði. Ég hef séð það gerast. Og þegar menn bíða eftir því að miðstýrða valdið ákveði hvaða réttindi eigi að skapa okkur dregur líka úr viljanum til að berjast fyrir slíkum réttindum.

Þannig er það, forseti, ég gæti haldið lengi áfram að tala um kosti og ekki síður ókosti Evrópusambandsaðildar. Ég tel reyndar að sjaldan hafi verið vitlausara að sækja um aðild að Evrópusambandinu en nú og sjaldan vitlausara að ganga þar inn, (Gripið fram í.) það er mín skoðun. En ég virði þá staðreynd að drjúgur hluti landsmanna óskar eftir því að láta á þetta reyna og ég virði þann vilja því að fyrir mér snýst þetta mál fyrst og síðast um lýðræðið og það snýst líka um að óttast ekki umræðuna og horfast í augu við vandann sem fram undan er. Hluti af veruleika okkar er sá að drjúgur hluti þjóðarinnar trúir því að okkur verði betur borgið innan Evrópusambandsins. Ég er algjörlega á öndverðum meiði og þar til ég sannfærist um eitthvað annað mun ég láta hressilega heyra frá mér í þá veru.