137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér situr hv. þingmaður Suðurkjördæmis úr okkar flokki, Atli Gíslason, ég veit ekki betur en hann hafi barist gegn Evrópusambandsaðild með kjafti og klóm og geri enn. Þannig er því varið með Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sem stjórnmálaafl að við höfum samþykkt ályktanir í þá veru að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé ekki í samræmi við hagsmuni Íslands. Að sjálfsögðu eru deildar meiningar, eins og í öllum stjórnmálaflokkum, nema kannski einum, Samfylkingunni. Innan okkar vébanda eru líka mismunandi áherslur og kem ég þar aftur að lýðræðinu. Við gengum til þessa samstarfs vitandi vits. Samfylkingin vildi hafa tiltekið form á aðkomu okkar að þessum málum. Gengið var frá því samhliða stjórnarmyndun að þeir sem væru á öndverðum meiði mundu greiða atkvæði í samræmi við sína sannfæringu og það mun koma í ljós við atkvæðagreiðsluna.