137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að Guð muni alltaf blessa Ísland. En ef við förum aðeins yfir hugmyndafræði og stefnur þá er athyglisvert að hlusta á hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala núna um það að einhverjir aðrir flokkar hafi komið okkur í þau vandræði sem við horfum fram á vegna þess að þessir sömu hv. þingmenn sögðu alltaf að allt góðæri sem við töldum að væri á traustari fótum væri allt komið út af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Sá mikli vandi sem við eigum við núna er út af innstæðutryggingakerfi Evrópusambandsins sem við þurftum að taka upp. Það er ekkert flóknara en það.

En svo ásökunum mínum gagnvart Samfylkingunni sé algerlega komið til skila þá segir, virðulegi forseti: Þeir voru að klára Icesave með þeim afleiðingum sem við þekkjum til þess að koma þessu máli í gegn. Ekkert annað skipti máli. Og gagnrýnislaus afstaða Samfylkingarinnar til Icesave-samningsins staðfestir það og sömuleiðis þessi keyrsla á þessu máli núna.