138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

útgreiðsla séreignarsparnaðar.

55. mál
[14:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og ekki síst það efnislega svar hans að hann telji einboðið að skoða þessar útgreiðslur áfram og jafnvel að hækka upphæðina. Hármarksupphæðin er í dag ekki nema í kringum eina milljón kr. Ég sá það í einhverjum fjölmiðli í síðustu viku að það er helst fólk á milli fertugs og fimmtugs sem hefur nýtt sér þennan sparnað.

Við sem höfum skoðað þetta mál ofan í kjölinn þekkjum að þeir sem helst hafa greitt í þessa sjóði — þessi lög hafa ekki verið til nema í tíu ár — eru einstaklingar sem eiga kannski ekki háar upphæðir þarna inni en hins vegar eru þetta upphæðir sem geta nýst fólki til skuldalækkunar, til þess að lækka dýr yfirdráttarlán, eins og hæstv. fjármálaráðherra kom hér inn á. Mér finnst því einboðið að þegar kreppir að í efnahagslífi þjóðarinnar og í heimilisbókhaldi einstaklinga að þessum einstaklingum sé þá valfrjálst að nýta þessa fjármuni til þess að greiða niður óhagstæðar skuldir. Það hefur í sjálfu sér lítið með lífeyrisgreiðslur á efri árum að gera. (Gripið fram í.)

Ég vil hins vegar, eins og ég sagði í upphafi, þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og fagna þeim tölum sem hann hefur birt hér. Þessar tölur staðfesta allt sem ég sagði í fyrri umræðu um þetta mál, þegar forsvarsmenn lífeyrissjóðanna komu hér og lögðust gegn því að þessi leið yrði farin vegna þess að það mundi setja lífeyrissjóðakerfið, þ.e. séreignarsparnaðarkerfið, á hliðina. Það er greinilegt að þessir peningar nýtast fólki sem tekið hefur óhagstæð lán, dýr lán. Það fólk nýtir sér þessa peninga núna og mér finnst einboðið að á þessu tímabili verði það þá leyft og upphæðin hækkuð eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir.