138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

minnst látins fyrrverandi þingmanns.

[11:49]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Friðjón Þórðarson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést í gær. Hann var á 87. aldursári.

Friðjón Þórðarson fæddist á Breiðabólstað á Fellsströnd 5. febrúar 1923. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Kristjánsson, bóndi og hreppstjóri þar, og Steinunn Þorgilsdóttir kennari. Friðjón gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1941. Lagði hann síðan stund á lögfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi í þeirri grein 1947. Hann öðlaðist réttindi héraðsdómslögmanns 1948 og hæstaréttarlögmanns 1991. Veturinn 1949–1950 var hann í náms- og kynnisdvöl við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York og við ríkislögregluskólann í New Haven, Connecticut, Bandaríkjunum.

Að loknu lagaprófi varð Friðjón Þórðarson fulltrúi borgardómarans í Reykjavík og síðar lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1947–1955, og var þá oft settur lögreglustjóri um skamman tíma. Hann var settur bæjarfógeti um tíma bæði á Akranesi og síðar á Siglufirði, en var skipaður sýslumaður í heimahéraði sínu, Dalasýslu, 1955 og gegndi því starfi til 1965, varð sýslumaður þar á ný 1991–1993. Árið 1965 flutti hann sig um set og varð sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um tíu ára skeið.

Friðjón Þórðarson gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í héraði og á landsvísu. Hann var stjórnarformaður Sparisjóðs Dalasýslu hin fyrri sýslumannsár sín þar, sat í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1960–1993, formaður þess 1969–1972. Hann sat lengi í stjórnum Sementsverksmiðju ríkisins, Brunabótafélags Íslands og síðar Vátryggingafélags Íslands. Hann sat í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps 1966–1970.

Friðjón Þórðarson var fyrst í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Dalasýslu við kosningarnar 1953, þrítugur að aldri, og á ný í alþingiskosningunum 1956. Þá hlaut hann sæti sem 11. landskjörinn þingmaður og sat til vors 1959. Í kosningunum 1959 og 1963 var hann ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins í Vesturlandskjördæmi og sat um tíma sem varamaður á Alþingi 1962. Hann var síðan kjörinn alþingismaður Vesturlandskjördæmis 1967 og sat samfleytt til vors 1991. Alls sat Friðjón á 30 þingum.

Í hinni sögulegu stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980 varð Friðjón Þórðarson dóms- og kirkjumálaráðherra og jafnframt samstarfsráðherra um norræn málefni. Gegndi hann ráðherrastörfum til 26. maí 1983.

Á Alþingi átti Friðjón lengi sæti í fjárveitinganefnd. Hann gegndi varaforsetastörfum í sameinuðu Alþingi árin 1973–1979. Hann var virkur í alþjóðlegu samstarfi Alþingis, m.a. í þingmannasamtökum NATO, Evrópuráðsins, EFTA og Vestnorræna ráðinu.

Friðjón Þórðarson átti sterkar rætur í Dalasýslu og á Vesturlandi og þeim héruðum helgaði hann krafta sína lengi. Hann varð á ungum aldri sýslumaður þar og alþingismaður og jafnframt forustumaður í félagsmálum. Naut hann þar vinsælda sinna, bæði í héraði og á landsvísu, en þjóðþekktur varð hann með kvartettinum Leikbræðrum á sjötta áratug síðustu aldar. Hafði hann góða söngrödd og söng með eldri félögum Karlakórs Reykjavíkur fram á síðustu ár. Auk þessa var Friðjón fimur við vísna- og ljóðagerð. Í starfi sínu varð hann fjölfróður um fólk og sögu svo með afbrigðum var. Sýndi hann sínu fólki mikla ræktarsemi, ritaði um sögu Breiðafjarðar og stóð fyrir margvíslegri menningarstarfsemi í héraði, ekki síst á Eiríksstöðum í Haukadal. Hann átti sæti í stjórn Hollvinasamtaka Dalamanna.

Friðjón Þórðarson átti traustu fylgi að fagna á þingmannsferli sínum. Hann var fylginn sér en jafnan prúður í málafylgjunni. Er hann hvarf af þingi átti hann nokkur góð starfsár í Búðardal og hélt ótrauður áfram að efla hag sýslunga sinna og Vestlendinga allra og dró hvergi af sér þótt aldurinn færðist yfir hann. Á því sviði skilaði hann miklu verki. Síðustu viðfangsefni hans voru safn um Leif Eiríksson og um Sturlu sagnaritara Þórðarson.

Ég bið þingheim að minnast Friðjóns Þórðarsonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]