138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að undra mig enn og aftur á því að hv. þm. Illugi Gunnarsson skuli setja sig í þau spor að standa hér árið 2010 og verja ákvörðun manna sem var tekin árið 2003, ákvörðun sem flestallir, a.m.k. sem hafa heilbrigða skynsemi að leiðarljósi, viðurkenna að hafi verið mistök. Ég verð að undra mig á því að þingmaðurinn skuli reyna að halda uppi vörnum fyrir þennan málstað.

Það er ekki allt uppi á borðum, hv. þingmaður. Einmitt þess vegna hafa ábyrgar þjóðir farið í gegnum það sem þær hafa verið að fara í gegnum hjá sér á undanförnum vikum, mánuðum og missirum. Við erum ekkert eyland í þeim efnum. Bretar og Bandaríkjamenn horfast í augu við að gerð voru mistök með þessari ákvörðun. Þarna var ráðist inn í land án þess að fyrir lægi að það væri einhver gereyðingarvopn að finna. Af hverju einfaldlega kemur ekki hv. þingmaður í lið með mér, öðrum flutningsmönnum og hv. varaformanni Sjálfstæðisflokksins sem sagði fyrr í þessari umræðu hér í dag að hún teldi eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn tæki þátt í þessari vinnu og tæki sæti í rannsóknarnefndinni ef hún yrði skipuð? Mér fannst hv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins brjóta nokkuð í blað með þeim ummælum. Mér fannst hún sýna með ummælum sínum að hún sæi að mistök hefðu átt sér stað þó að hún reyndi að sjálfsögðu aðeins að malda í móinn í málflutningi sínum. Mér finnst að hv. þm. Illugi Gunnarsson ætti að feta í fótspor varaformanns síns og viðurkenna bara að (Forseti hringir.) þarna hefðu átt sér stað mistök. Það er ekki allt uppi á borðum eins og ég rakti og stendur í þingsályktunartillögunni sem ég hvet hv. þingmann til að kynna sér.