138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt athyglisvert sem kom fram hjá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni, í Fréttablaðinu á laugardaginn var. En ég held við verðum samt að gera okkur grein fyrir því í hvaða vinnu þingið hefur þegar farið. Það er alveg einsdæmi, að ég hygg, í vestrænum ríkjum að þjóðþing hafi ákveðið að fara í slíka skýrslugerð sem rannsóknarskýrslan er. Hún er auðvitað ákveðinn vitnisburður um þau mistök sem gerð hafa verið og því finnst mér svo mikilvægt að hún standi sjálfstætt og þær niðurstöður sem þar eru fólgnar. Þar liggur fyrir niðurstaða rannsóknarnefndar um vanrækslu þriggja ráðherra og sú niðurstaða verður ekki aftur tekin, hún stendur. Ég held að við eigum að horfa á það hvað við höfum þegar gert og hversu stór skref við höfum stigið til að gera þá atburði upp sem hér er um að ræða.